Gripla - 2019, Side 111
111
tákn sem verða á hinum síðustu 15 dögum fyrir dómsdag (17r10–18r6)10 og
nokkru aftar (23v5–24r15) er að finna hina svokölluðu Jólaskrá sem spáir
fyrir um árferði miðað við það á hvaða vikudag jóladagur fellur.11 Þar á eftir
(24v1–8) fer stuttur texti sem lagður er í munn Híerónýmusi kirkjuföður
(„Suo seigir jeronimus prestur ...“) og skýrir hvernig vikudagarnir tákna
hinar sjö gjafir heilags anda. Þessu fylgir ágrip af sköpunarsögunni með
upptalningu nokkurra lykilatburða biblíunnar sem sagðir eru hafa orðið á
sunnudegi (24v8–25r15).
Miðhluti handritsins, bl. 30r–55r, er að mestu lagður undir bænir,
bæði á íslensku og latínu, og nafnaþulur sem brúkast eiga til verndar gegn
háska og illum öflum. Líta má svo á að söngvarnir sem fylla aftasta kverið
heyri hér til og í þessari grein verður sjónum einkum beint að þessu efni,
söngvum og bænum, en lögð áhersla á að skilja það út frá því samhengi
sem það fellur inn í. Handritið AM 461 12mo virðist nefnilega prýði-
legur fulltrúi þeirra bóka sem fólk hafði sér til stuðnings í trúarlífi sínu:
Rímfræðihlutinn heldur utan um hræranlegar hátíðir, föstur og önnur
minnisatriði um sérstaka daga; margar lagagreinanna snúast einnig um
helgihald, föstur og aðrar skyldur kristinna manna; og bænahlutinn ásamt
söngblöðunum fjórum vísar okkur á það trúarlega innihald sem fyllti út
í þennan ramma. Með því að rýna í þessa litlu bók getum við ef til vill
komist nær þeim veruleika sem eigandi (eða eigendur) hennar hrærðist í,
veruleika sem rúmaði Maríu guðsmóður og aðra helga dýrlinga ekki síður
en heilaga þrenningu, heim þar sem jafnvel einber nöfn heilagra töldust
bera í sér vernd. Þessari heimssýn átti siðbreytingin eftir að bylta, þótt
lengi hafi eimt eftir af þeim trúarsiðum sem almenningi voru svo inngrónir
á síðmiðöldum. Til þess að komast til einhvers skilnings á þeim veruleika
10 James W. Marchand, „Early Scandinavian Variants of the Fifteen Signs before Doomsday,“
Acta Philogica Scandinavica 31 (1976): 117–132. Fyrir utan 461 er textann að finna í
Skarðsbók Jónsbókar (AM 350 fol.), AM 135 4to og AM 194 8vo. Texta 461 ber mjög
saman við þann sem er í síðastnefnda handritinu.
11 Sjá Alfræði íslenzk II, 175–178. Jólaskrá er varðveitt á latínu í Hauksbók (Hauksbók, 468) og
virðist þýðingin í 461 vera ættuð frá þeim texta, sjá t.d. lesháttinn ‘meliores moriuntur’ í Hb
(9. lína) fyrir ‘mulieres moriuntur’ (Alfræði íslenzk II, 177) — þetta er þýtt „hiner betri menn
munv deyia“ í 461. Finnur Jónsson, útgefandi Hauksbókar rekur textann til Beda prests
(Hauksbók, cxxvii), en hann mun vera eldri og gengur oft undir heitinu Revelatio Esdrae.
Sjá Finn Hødnebø, „Juleskrå,“ KLNM 8, 19; The Old Testament Pseudepigrapha. Vol. I.
Apocalypic Literature and Testaments, útg. James H. Charlesworth, (New York: Doubleday,
1983), 601–604.
Dý rLIngar og DagLEgt BrauÐ Í LangaDaL