Milli mála - 2018, Page 15
ERLA ERLENDSDÓTTIR
Milli mála 10/2018 15
Í þessari grein verður fjallað um tvö orð sem eiga rætur í tungu-
málum frumbyggja spænsku Ameríku7 og hafa verið tekin upp í
ýmis Evrópumál; hér verður sjónum einkum beint að norðurger-
mönsku tungumálunum: dönsku, íslensku, norsku og sænsku. Orðin
sem um ræðir eru af merkingarsviðinu nytjajurtir, ahuacatl ,avókadó‘
og mahiz ,maís‘, og koma upprunalega úr nahuatl-máli í Mexíkó og
taíno-máli sem var talað á Antillaeyjum. Ætlunin er að varpa ljósi
á sögu8 orðanna, þ.e. uppruna þeirra, fyrstu rituðu heimildir um
þau, og rekja leið þeirra frá upprunamáli yfir í spænsku og önnur
viðtökumál og áfram til viðtökumálanna sem hér eru í brennidepli.
Ekki er hugmyndin að fjalla ítarlega um form- eða merkingar-
breytingar orðanna í viðtökumálunum þótt lauslega verði drepið á
breytingar sem þau kunna hafa tekið á ferð sinni frá einu tungumáli
til annars og aðlögun þeirra að málkerfi fyrrnefndra viðtökumála.
Orðin sem urðu fyrir valinu eru hluti af orðaforða daglegs lífs í
viðtökumálunum sem um ræðir. Fyrir vikið má gera ráð fyrir að þau
komi fyrir í helstu orðabókum viðkomandi tungumála, sögulegum
orðabókum, orðsifjabókum og þeim ýmsu gagnagrunnum sem eru
aðgengilegir á vefsíðum, eða í seðlasöfnum, stofnana sem hafa með
orð- og orðabókarannsóknir að gera, og þar var leitað fanga. Einnig
hafa frumheimildir verið skoðaðar, einkum þýðingar og rit sem lúta
að nýrri veröld í Vesturheimi. Þess má geta að orð úr tungumálum
frumbyggja í spænsku Ameríku komu yfirleitt inn í viðtökumálin
í ritmáli, öðrum heimildum um orðin er augljóslega ekki til að
dreifa, en elstu ritdæmi margra orðanna í norrænum málum er að
finna, líkt og í öðrum evrópskum viðtökumálum, í ritum af ýmsum
toga. Má þar nefna til dæmis þýðingar, ferðasögur, fræðitexta, mat-
reiðslubækur, orðasöfn og orðabækur, tímarit og dagblöð.
Efnisskipan greinarinnar er þannig að í öðrum kafla eru áður-
nefnd orð kynnt til sögunnar. Í kafla 2.1 er fjallað um orðið avókadó.
Þá er sjónum beint að maís í kafla 2.2 og greininni lýkur svo með
samantekt og lokaorðum.
7 Hér er átt við þann hluta Ameríku þar sem nú er töluð spænska, til aðgreiningar frá þeim svæðum
í Ameríku þar sem töluð er portúgalska, franska, enska og hollenska.
8 Nálgunin er menningar- og orðsöguleg.