Milli mála - 2018, Page 81
GUÐRÚN KRISTINSDÓTTIR-URFALINO
Milli mála 10/2018 81
Því leikritið rúmar og er á hverjum tíma vettvangur fyrir hina eilífu
leit leikhúsfólks að nýjum túlkunum og sjónarhornum og það er
einmitt sá eiginleiki þess sem gerir það sígilt.
6. Tartuffe á Íslandi
Gamanleikurinn um Tartuffe var fyrst frumsýndur hjá Leikfélagi
Reykjavíkur í Iðnó sumarið 1929 í rímaðri þýðingu Indriða
Einarssonar og Alexanders Jóhannessonar.56 Leikstjórn var í höndum
danska leikarans Pouls Reumert sem einnig fór með hlutverk
Tartuffes. Ólíklegt er að hann hafi leikið á íslensku og áhugavert
væri að vita hvort eitthvað hafi verið spilað á tvítyngi sýningarinnar
í svipuðum anda og gert var í tvímála sýningunni í Theatre Royal
Haymarket sem áður var vikið að. Svo mikið er víst að svo stuttu
eftir að Íslendingar fengu fullveldi frá Dönum hefði mátt leggja ýmsa
merkingu í tungutak fyrri herraþjóðar. Hins vegar er ekki fjallað
um tungumál danska stórleikarans í blaðagreinum um sýninguna
en kvartað þeim mun meira yfir framsögn íslensku leikaranna sem
hafi ekki hlotið þjálfun í „að segja fram ljóð á leiksviði“. Einnig var
Guðmundur Kamban ósáttur við hrynjandi þýðingarinnar og túlkun
leikstjórans sem lagði megináherslu á ást Tartuffes á Elmíru.57
Aðeins voru sýndir 3. og 4. þáttur og því hafa orðaskipti loddarans
og húsfreyjunnar verið meginuppistaðan í sýningunum sem urðu
þrjár talsins. Brynjólfur Jóhannesson var í hlutverki Orgons og Soffía
Guðlaugsdóttir fór með hlutverk Elmíru.58
Tartuffe eða svikarinn var leiklesið í útvarpinu árið 1946 í prósa-
þýðingu Boga Ólafssonar sem upphaflega stóð til að setja upp hjá
Leikfélagi stúdenta. Ekki varð af þeirri sýningu þar sem búningar
sem leikfélagið átti von á að fá senda frá Bandaríkjunum bárust
ekki í tæka tíð. Stúdentarnir brugðu þá á það ráð að leiklesa verkið
í útvarpinu. Formaður leikfélagsins greindi frá þessum aðdraganda
í kynningu sem birtist í Útvarpstíðindum og tók fram að í túlkun
56 Þórhallur Þorgilsson, Drög að skrá um ritverk á íslenzku að fornu og nýju af latneskum eða rómönskum
uppruna. I. Frakkland, Reykjavík, Landsbókasafn Íslands, 1954, bls. 70. Handrit þýðingarinnar
virðist vera glatað en leikskrá sýningarinnar er varðveitt á Borgarskjalasafni.
57 Guðmundur Kamban, „Tartuffe“, Morgunblaðið, 25. júní 1929, bls. 2 [sótt á timarit.is 31. október
2018].
58 Samkvæmt grunni Leikminjasafns Íslands, http://leikminjasafn.is/grunnur/#/leiksyning/1429