Milli mála - 2018, Síða 95
MARION LERNER
Milli mála 10/2018 95
þjóðsagnaþýðingunni Isländische Märchen nefnir hann í inngangi að
forlagið hafi beðið hann að sleppa frekari skýringum; inngangurinn
er þó 23 blaðsíður að lengd.23 Í þessu undantekningartilviki fylgja
því einungis tileinkun og inngangur frá þýðandanum. Þar sem
hliðartextar eru yfirleitt hluti af þýðingum hans, má kalla þá
áberandi einkenni þessa þýðanda.
Í þýðingafræði undanfarinna áratuga hefur mikið verið fjallað
um sýnileika (e. visibility) eða öllu heldur ósýnileika (e. invisibility)
þýðandans. Árið 1995 birti Lawrence Venuti áhrifamikla sögu-
lega greiningu sína á ensk-amerískri þýðingahefð og tilheyrandi
hugmyndafræði.24 Hann komst að þeirri niðurstöðu að almennt
væri til þess ætlast að þýðingar litu ekki út fyrir að vera þýðingar.
Textarnir ættu að vera einfaldir og áreynslulausir aflestrar og það
sem væri framandi í þeim ætti frekar að dylja en að gera sýnilegt.
Þýðingar nytu í þeim efnum minna frelsis en frumtextar þótt þver-
sagnarkennt mætti virðast. Til að hlífa lesendum væri beitt að-
ferðum á borð við heimfærslu og fagurfræðileg viðmið markmálsins
og markmenningarinnar yfirfærð á textann. Þess utan væri oft
ekki greint frá nafni þýðandans. Á grundvelli þessarar greiningar
kallar Venuti eftir viðnámi og hvetur þýðendur til að hleypa hinu
framandi inn í textana. Hann hvetur til framandgervingar í þýð-
ingum, aðallega af pólitískum ástæðum og er gagnrýninn á hið
mikla forræði enskumælandi, norður-amerískrar menningar. Þótt
þýðingahefðir á þýsku samsvari ekki þeim ensk-amerísku eru til-
hneigingarnar svipaðar að hluta til. Í tilviki þýðinga af íslensku
á þýsku er mikilvægast að vera vakandi fyrir því, hvort sjá megi
merki um forræði eða a.m.k. ójöfnuð á milli menningarheima.
Samhliða framandgervandi textanálgunum er hægt að nýta hliðar-
texta til að gera þýðingarvinnuna gagnsæja eða a.m.k. sjáanlega.
Síðan á tíunda áratug 20. aldar hafa femínískir þýðingafræðingar
og þýðendur beint sjónum sínum að kerfisbundnum ósýnileika
kvenkyns þýðenda og bent á að sporna mætti gegn þessum ósýni-
leika m.a. með notkun innganga, for- og eftirmála, athugasemda,
23 Isländische Märchen, 1884, „Einleitung“, bls. XXII.
24 Lawrence Venuti, The Translator’s Invisibility. A History of Translation, London og New York:
Routledge, 2002 [1995].