Milli mála - 2018, Page 106
NÆRVERA OG TÚLKUN ÞÝÐANDANS
106 Milli mála 10/2018
langurinn hafi í raun og veru haft ljóðabókina með í farangrinum.59
Í formálanum að Eislandblüten skrifar Poestion um skilyrði sín fyrir
vali á ljóðum í bókina, sem undirstrikar enn frekar land- og menn-
ingarfræðilegan eða jafnvel uppeldisfræðilegan áhuga hans og fela
sem fyrr í sér fyrirvara um gæði bókmenntanna:
Enn sem komið er fylgi ég persónulegum áhuga og leitast í senn við að
gera íslenskan bókmenntaarf aðgengilegan almenningi að því leyti að ég
þýði líka fjölda kvæða sem kunna að hafa minna listrænt gildi og eru ekki
fyrst og fremst mikilvæg sem bókmenntir, heldur gefa sérlega heillandi
eða lærdómsríka mynd af andrúmsloftinu í mann-, menningar- og nátt-
úrulífi Íslands.60
Mjög ítarlegar skýringar á menningu, sögu og bókmenntum Íslands
sem Poestion lætur fylgja í inngangstextum sínum eru í samhljómi
við þessa stefnu. Í raun mætti birta þessa textahluta sem sjálfstæðar
ritgerðir, og segja þeir mikið um yfirgripsmikla þekkingu höfundar
á sögu lands og þjóðar. Sjálfur kallar hann til dæmis 43 blaðsíðna
inngang sinn að Eislandblüten „menningarsögulegan uppdrátt“.61
Séu inngangarnir að mismunandi útgáfum af Jüngling und
Mädchen bornir saman kemur í ljós að Poestion breytti textanum að
hluta. Hann jók fyrst og fremst við hann með fjölmörgum vísunum
í fræðitexta, aðrar þýðingar sem komið höfðu út í millitíðinni, rit-
dóma og síðast en ekki síst eigin rit, svo sem þjóðsagnaþýðinguna
Isländische Märchen, hina fræðilegu Einleitung in das Studium des
Altnordischen62 og Isländische Dichter der Neuzeit. Inngangurinn að
fjórðu útgáfunni einkennist af umfangsmeiri fagþekkingu, sem sett
er fram af vaxandi öryggi og virðist beinast að áhugasömum og vel
59 Ina von Grumbkow, Ísafold. Reisebilder aus Island, Berlin: Reimers, 1909; Marion Lerner, Von der
ödesten und traurigsten Gegend zur Insel der Träume. Islandreisebücher im touristischen Kontext, München:
Herbert Utz Verlag, 2015, bls. 212.
60 „Vorläufig folge ich einer persönlichen Neigung und popularisatorischen Erwägungen, indem ich
auch eine nicht geringe Anzahl von Gedichten übersetzte, die vielleicht künstlerisch weniger
bedeutend und nicht in erster Linie literarisch zu werten sind, aber als Stimmungsbilder aus dem
Menschen-, Kultur- und Naturleben Islands einen aparten Reiz oder belehrenden Inhalt besitzen.“
– Poestion, Eislandblüten, 1904, bls. VII.
61 Sama rit, bls. XI.
62 Joseph Calasanz Poestion, Einleitung in das Studium des Altnordischen, Hagen og Leipzig: Hermann
Risel Verlag, 1. bindi: Grammatik, 1882, 2. bindi: Lesebuch mit Glossar, 1887.