Milli mála - 2018, Page 123
OLGA ALEKSANDROVNA MARKELOVA
Milli mála 10/2018 123
fyrir ólétta konu, „óátekin spóla“ fyrir hreina mey og orðið
„landvörður“ fær merkinguna „hvimleiður einstaklingur langt að
kominn“. Slíkar myndhverfingar eru oftast gegnsæjar og þess vegna
auðveldar í þýðingu.
Enn fremur er mikið um orðaleiki með örnefni og mannanöfn í
skáldsögu Hallgríms. Þar er einkum tvennt á ferðinni: leikur með
merkingu orðs eða með hljóm þess. Sem dæmi um það fyrrnefnda
má nefna eftirfarandi: fjallsheitið Baula er „þýtt“ á ensku sem
„Cowspeak“, af íslensku sögninni „að baula“; strákurinn sem heitir
Þröstur er kallaður „fugl“ og „snjótittlingur“, enda er merking
nafnsins fuglsheiti. Dæmi um það síðara eru eftirfarandi: karl-
mannsnafnið Magnús er brenglað í „Nagmús“; örnefnið Kiðafell er
„þýtt“ á ensku sem „The Kid that Fell“; nafn aðalhetjunnar sjálfrar
er skopstælt sem „Linur Björn“ og eftir miklum kvennafarsævin-
týrum hans sem: „Hlynur Björn – Hlynur þrjú börn“.
Lausnin á því hvernig þýða skyldi þess háttar orðaleiki á
rússnesku lá fyrst og fremst í því að frumtextinn bauð upp á
möguleikann að leika sér ekki eingöngu með merkingu nafnanna
heldur líka með hljóm þeirra. Leikur með hljóm mannanafnanna í
skáldsögunni virtist frekar auðleysanleg þraut fyrir þýðanda sem býr
ekki við skort á ímyndunarafli. Af hljómi nafns aðalhetjunnar mátti
þá draga nýsköpunaryrði á borð við „хлинический случай“ (khlí-
nítsjeskí slútsjaj, sbr. algengt orðatiltæki „клинический случай“,
klínítsjeskí slútsjaj, klínískt tilfelli). Hér er fyrsta stafnum, „к“, í
þessu fasta orðasambandi, skipt út fyrir stafinn „х“ (kh) sem er
fyrsti stafurinn í nafni Hlyns upp á rússnesku. Fyrri hluti orðsins
хлинический (khlínítsjeskí) hljómar því eins og eiginnafn aðal-
söguhetjunnar. Svipað er uppi á teningnum varðandi skamm-
stöfunina „Хлин Бьёрн – х/б“ (Khlín Bjorn – kh/b) sem vísar til
atviksins þegar aðalhetjan felur sig í þvottahúsinu innan um þvott
á snúrum, en „х/б“ er skammstöfun fyrir bómull á rússnesku.
Í þessu samhengi má nefna eitt dæmi sem er mitt á milli orða-
leiks með hljóm og merkingu orða: „Karlmaður þitt nafn er Þráin“
(175). Hér er kvenkynsorðið „þrá“ með ákveðnum greini nánast
samhljóma karlmannsnafninu „Þráinn“ og þetta gefur aðalhetjunni
möguleika á að persónugera tilfinningar sínar. Þýðingarlausnin varð
að búa til karlmannsnafn úr rússnesku orði með svipaða merkingu