Milli mála - 2018, Page 174
REKKJUVOÐ JARÐAR
174 Milli mála 10/2018
brauðsneið. Hún gleymdi víninu. Maðurinn borðaði af bestu lyst.
Konan horfði á hann í myrkrinu og reyndi að sjá fyrir sér andlit hans.
„Á ég að koma með teppi handa þér?“ „Nei,“ svaraði maðurinn, „það
er ekki kalt.“ Hann lauk við matinn og lagðist á jörðina. Konan bauð
honum góða nótt.
Skömmu eftir að konan fór mundi hann eftir því að hann hafði
ekki fengið neitt að drekka. Hann langaði að kalla á hana, en rödd
hans fjaraði út í vindinum eins og fíngerður silkipappír. Þar á ofan
voru dyrnar á húsinu hans lokaðar og ljósin slökkt, og allt benti til
þess að kona hans væri í fastasvefni.
Þorstinn varð meiri og meiri eins og víðfeðmar sandbreiður; garð-
yrkjumaðurinn gekk yfir þær þangað til hann kom, í minningunni,
að greniskógi nokkrum í Patagóníu. Hann var með öxi og sög.
Bolir trjánna voru sverir og þaktir mosa. Trén voru orðin mjög há
og það varð að snyrta þau til þess að halda þeim í skefjum. Verkið
reyndist erfitt, það varaði dag eftir dag. Greinarnar stungust út eins
og óvæntir snákar. Skógurinn stundi innan um gjálpandi hávaðann
í sögunum. Óvæntur brottrekstur fugla og annarra dýra sem bjuggu
á greinunum breytti nótt skógarins í dag. Trjánum blæddi með dá-
samlegum ilmi, sárin opnuðust og rauðir og bláir regnbogataumar
streymdu fram. Skógurinn varð eins og risavaxið sjúkrahús með
særðum trjám án handleggja og fótleggja. Maðurinn fann til þorsta
þennan dag, sama þorsta og nú, þorsta sem rann saman við lyktina
af trjákvoðu.
Ofurfínn regnúði féll, hér voru engin grenitré, ekki eitt einasta
grenitré. Mikið voru garðar án grenitrjáa og barrtrjáa einkennilegir.
Það var enn kveikt á ljósunum í stóra húsinu. Einhver var í heim-
sókn, og eftir matinn gekk fólkið um garðinn með húsmóðurinni.
Hann kraup aftur á knén. Hún sá hann þarna í myrkrinu. „Enn
að vinna,“ hrópaði einhver úr fjarlægð, eins og rödd þakkláts sund-
manns sem er í þann veginn að stinga sér aftur til sunds.
Garðyrkjumaðurinn fann hvernig höndin hans opnaðist og tók að
soga í sig vatnið úr jarðveginum. Vatnið seytlaði hægt og rólega upp
eftir handleggnum og að hjartanu. Þá lagðist hann undir tímalausar
rekkjuvoðir jarðarinnar. Hann fann hvernig hann fór að vaxa með
gróskumikið hár og græna handleggi.