Milli mála - 2018, Side 179
SILVINA OCAMPO
Milli mála 10/2018 179
það næði yfir mjaðmirnar á konunni, en án árangurs. Ég hjálpaði til
eins og ég gat. Loksins tókst frúnni að komast í kjólinn. Uppgefin
hvíldi hún sig andartak í hægindastólnum, stóð síðan á fætur til
að spegla sig. Kjóllinn var gullfallegur og svo margbrotinn! Það
glampaði á útsaumaðan dreka með svörtum pallíettum vinstra
megin á kjólnum. Casilda kraup niður, horfði á frúna í speglinum og
tók að brjóta upp faldinn. Síðan reis hún á fætur og stakk títuprjón-
unum í brotin á kjólfaldinum, hálsmálinu og ermunum. Ég snerti
flauelið: það var gróft þegar ég strauk hendinni í aðra áttina eftir því
en mjúkt þegar ég strauk því í hina áttina. Ég fékk gæsahúð þegar
ég kom við yfirborðið efnisins. Títuprjónarnir duttu á viðargólfið og
ég tók þá hátíðlega upp, einn og einn í einu. Það var fyndið!
– Það er aldeilis kjóll! Ég held að það sé ekki til svona fallegt snið
í allri Búenos Aíres, sagði Casilda og títuprjónninn sem hún var með
á milli tannanna datt á gólfið. – Ertu ekki ánægð með hann, frú?
– Jú, alveg sérlega. Flauel er einmitt efnið sem ég hef mest dálæti
á. Efni er eins og blóm: allir eiga sitt uppáhaldsblóm. Mér finnst
flauel eins og liljur.
– Ertu hrifin af liljum? Þær eru svo dapurlegar, andmælti Casilda.
– Liljur eru uppáhaldsblómin mín, samt hafa þær slæm áhrif á
mig. Mér verður ómótt þegar ég anda að mér ilmi þeirra. Hárin rísa
á höfðinu á mér af flauelinu og ég fæ gæsahúð, alveg eins og ég fékk
af línhönskum þegar ég var lítil, samt er ekkert efni í heiminum
sem jafnast á við það. Mér finnst svo notalegt að finna mýkt þess á
höndunum en um leið svo fráhrindandi. Það er ekki til betur klædd
kona en sú sem klæðist svörtu flaueli! Það þarf ekki blúndukraga,
hvað þá perlufesti; því yrði ofaukið. Flauelið sjálft stendur fyrir sínu.
Það er ríkmannlegt en laust við allan íburð.
Þegar frúin lauk máli sínu átti hún erfitt með andardrátt. Einnig
drekinn. Casilda sótti dagblaðið sem lá á borðinu og reyndi að kæla
hana, en konan bandaði hendinni og bað hana að hætta af því að kalt
loft gerði henni ekki gott. Það var fyndið!
Ég heyrði ópin í farandsölunum berast inn af götunni. Hvað
voru þeir að selja? Ávexti eða ís kannski? Ómurinn af flautinu í
brýningarmanninum og klingjandi bjöllu íssalans færðist upp og
niður götuna. Ég stökk ekki í forvitni að glugganum eins og ég var
vön. Ég gat ekki slitið mig frá því að horfa á frúna máta kjólinn með