Þjóðmál - 01.06.2020, Page 76

Þjóðmál - 01.06.2020, Page 76
74 ÞJÓÐMÁL Sumar 2020 Meðal þeirra var Pauline (Paula) Weg, fædd Marcus í bænum Znin í Póllandi árið 1896.13 Hún hafði þá sérstöðu meðal farþega lestar- innar að hafa gilda vegabréfsáritun til Íslands, síðast útgefna í maí 1941.14 Einnig má nefna að maður hennar, Otto Weg, hafði dvalið á Íslandi frá desember 1939. Það bjargaði henni þó ekki frá þessum hræðilegu örlögum. Fleiri farþegar í „sendingu 32“ höfðu tengsl við Íslendinga. Í október 1942 hóf norska borgaralögreglan að safna saman Gyðingum og flytja þá í gæslubúðir. Andspyrnuhreyfingin reyndi á hinn bóginn að koma þeim undan, bæði með því að fela þá innanlands og smygla þeim yfir til Svíþjóðar. Vilhjálmur Finsen yngri, stofnandi Morgunblaðsins og áhugamaður um ætlað gyðinglegt ætterni útlendinga í Reykjavík við upphaf 20. aldar, var þá sendi- erindreki Íslands í Noregi og Svíþjóð. Nokkrir ofsóttir Gyðingar höfðu leitað liðsinnis hans við að flýja: Hjónin Felix Georg og Elfriede Lomnitz, sem voru um fimmtugt og höfðu flúið til Noregs frá Þýskalandi, flóttamaðurinn Clothilde Hanauer (f. 1882) og Fritz Josef Türkheimer (f. 1907 í Noregi) sem var verk- fræðingur í Harðangri, sonur Clöru (f. Mayer) frá borginni Trier. Ekki er vitað um nákvæm málsatvik en sænsk stjórnvöld blönduðu sér í leikinn og fékk sænski erindrekinn í Ósló það hlutverk að ítreka við Finsen, sem þá var staddur í Noregi, beiðni um að aðstoða Gyðinga þessa ef hann gæti. Af ýmsum ástæðum gekk það ekki eftir. Fólkið var handtekið skömmu síðar í allsherjarátaki lög- reglunnar og sent í gæslubúðir í Noregi. Af Gyðingum þessum kvaddi Fritz Josef Türkheimer fyrstur. Hann fór með skipinu Donau í nóvember 1942 og var myrtur í Auschwitz-búðunum 14. janúar 1943.15 Hinir Gyðingarnir voru fluttir með skipinu Gotenland til Þýskalands seinni hluta febrúarmánaðar 1943. Þeir héldu síðan áfram til Berlínar og komu þangað í tæka tíð til að fara samtímis Paulu Weg og fleirum með „sendingu 32“ til Auschwitz í marsbyrjun. Vitað er að Lomnitz-hjónin, Clara Türkheimer og Clothilde Hanauer voru myrt í dauðabúðunum.16 Sumir aðrir umsækjendur Gyðinga um landvistarleyfi á Íslandi voru myrtir eða létust af ýmsum ástæðum í gyðingahverfum eða einhvers konar fangabúðum nasista. Einhverjir þeirra lifðu af stríðsárin í Þýskalandi eða létust þar í landi af ókunnum ástæðum.17 Svipað var að segja um umsækjendur Gyðinga frá Austurríki, Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi en finna má suma þeirra í gagnabönkum Yad Vashem-helfararsafnsins í Jerúsalem, Bandaríska helfararsafnsins í Washington, í ættfræðibönkum á Netinu og víðar.18 Sumir umsækjendur virðist hafa fengið hæli í öðrum löndum og komist lífs af. Um marga er þó ekkert vitað. Íslendingar hefðu vitaskuld aldrei getað tekið við öllu þessu fólki en þeir hefðu að minnsta kosti getað tekið skerf sinn í samanburði við aðrar vestrænar þjóðir. Það gerðum við ekki, eins og rætt var í Erlendum landshornalýð. Jafnframt má helst ekki ræða þessi mál opinberlega og stjórnvöld hunsa staðfastlega þennan sorglega og á köflum vafasama þátt í sögu landsins. Höfundur er sagnfræðingur.

x

Þjóðmál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.