Þjóðmál - 01.06.2020, Page 81

Þjóðmál - 01.06.2020, Page 81
ÞJÓÐMÁL Sumar 2020 79 Verdi með Abbado Flestir kannast við þrjár frægustu óperur Verdis, Il trovatore, Rigoletto og La traviata, og af þeim eru til fjölmargar prýði legar hljóðritanir. Færri þekkja þó meistaraverkið Simon Boccanegra en þannig vill einmitt til að í hópi bestu hljóð ritana sögunnar er einmitt upptaka af því verki, gerð á Scala árið 1977. Hér fer saman ótrúlegur söngur, hljómsveitarleikur, hljómsveitarstjórn og upptökutækni sem gerir upptöku Abbados á verkinu að ómissandi hluta af tónlistarsafni tónlistarunnenda. Sögu þráður óperunnar kann að reynast mörgum ráðgáta en tónlistin, maður lifandi! Abbado var stundum uppnefndur „lyfja- fræðingurinn“ á Ítalíu fyrir hversu nákvæmur hann var (2 mg af forte, 3 ml af pianissimo o.s.frv.) en það er mikil dýpt í túlkun hans á þessari perlu Verdis. Ein af eftirlætis- hljóðritunum mínum. Wagner með Solti Hljóðritun Sir Georgs Solti af Niflungahring Wagners er meðal mest seldu klassísku hljóðritana í heiminum. Því var einmitt spáð í öndverðu að þessi hljóðritun, sem gerð var á tímabilinu 1956-65, myndi einmitt ekkert seljast en annað kom á daginn. Hringurinn hafði aldrei verið hljóðritaður í heild sinni áður í stúdíói, hvað þá í steríó. Á þessum tíma urðu líka miklar framfarir í upptökutækni sem gerðu upptökustjóranum, John Culshaw, mögulegt að hljóðrita þetta risaverk Wagners á afar sannfærandi hátt. Ekki spillir fyrir að söngur á upptökunni er fyrsta flokks. Hér má nefna sem dæmi Kirsten Flagstad, Hans Hotter, Birgit Nilsson, Christu Ludwig og Wolfgang Windgassen, en allt voru þetta söngvarar í fremstu röð á sinni tíð. Vínar- fílharmónían leikur af fádæma öryggi og innlifun og öllu saman stjórnar Solti af sama kraftinum og einkenndi öll störf hans. Bach með Gould Kanadíski píanistinn Glenn Gould skiptir heiminum í tvennt, annaðhvort sverja menn við leik hans (einkum í Bach) eða þá að hann þyki einfaldlega tilgerðarlegur (sem hann gat vissulega verið). Gould hljóðritaði Goldberg-tilbrigðin tvisvar, fyrst árið 1955 og svo aftur árið 1981. Fyrri upptakan var fyrsta hljóðritunin sem Gould gerði fyrir Columbia- útgáfufyrirtækið og seldist hún gríðarvel, sem kom á óvart, enda Goldberg-tilbrigðin ekki vel þekkt á þessum tíma. En það átti eftir að breytast, eins og túlkun hans á verkinu. Gould settist aftur við píanóið árið 1981 og túlkun hans þá er hægari og að því er virðist gætnari. Fyrri upptökuna er að finna á mörgum listum yfir helstu hljóðritanir sögunnar en ég hef alltaf verið hrifnari af seinni upptökunni. Arían í upphafi (og lok) verksins hefur sjaldan verið leikin með ljóðrænni hætti (í lúshægu tempói). Höfundur er sagnfræðingur.

x

Þjóðmál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.