Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1966, Blaðsíða 24
28
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
ofanjarðar lítið eitt sunnan við þróna. Brýnið styrkir þá skoðun, að
þróin sé hlaðin gröf, og hefur sá, sem hefur verið heygður þar, verið
færður úr henni. Út frá hrosstönnunum er ógerningur að segja,
hvort hestur hefur einnig verið heygður á staðnum, því að tennurnar
hafa vel getað borizt þangað við umrót eða jarðfok.
Svínstönn. Ein stök svínstönn fannst einnig á sama stáð, en ekki
varð vart annarra svínsbeina.
Þetta kuml, sem er hvað merkast íslenzkra kumla, sem rannsökuð
hafa verið, er um margt sérstætt, og er þó að vísu allillt, að staðurinn
skyldi tvívegis verða fyrir mikilli röskun, áður en hann yrði rann-
sakaður. Bendir flest, svo sem stærð bátsins og haugféð, til þess, að
aðeins hafi ein manneskja verið jörðuð í bátnum upphaflega, og
þá líklega kona. Steinsörvið, bjallan, kambarnir og armbaugarn-
ir eru allt munir, sem helzt finnast í gröfum kvenna. Segja má
reyndar, að óvænt sé að finna þrjá kamba í einni gröf, því að
venjan er sú, að aðeins einn kambur finnist í stað. Undantekning-
ar eru þó frá þessu, og nefnir Jan Petersen tvö dæmi um, að fjórir
kambar hafi fundizt í einni gröf í Noregi (23).
Þótt kumlinu hafi verið svo raskað sem raun var á, mátti þó
gerla sjá, hver umbúnaður kumlsins hefur verið í öndverðu og
hvernig það hefur verið sett.
Grafin hefur verið rás, hæfilega stór til að rúma bátinn, niður
í hólinn, og hefur hún náð um eitt fet niður í melinn undir hólnum.
1 hana hefur báturinn verið settur og látinn snúa stöfnum sem næst
í austur og vestur. Hin látna hefur síðan verið lögð í bátinn ásamt
skartgripum sínum og verndargripum, og hefur hundur hennar
einnig verið látinn fylgja með í gröfina. Síðan hefur verið orpinn
lágur haugur yfir og grjót úr fjörunni verið borið á hann og raðað
utan með. Hefur haugurinn þá líkzt aflangri grjótdyngju, sem skor-
ið hefur sig úr umhverfinu, þangað til sandur fauk að henni og færði
hana að lokum í kaf.
Sennilegast er, áð í Reiðholti hafi verið kumlateigur frá Vatns-
dal í heiðnum sið. Fjarlægðin frá bænum, um 4—500 m, styður
þá skoðun. Nafnið Reiðholt bendir einnig til þess, að þarna hafi
alfaraleið legið á fyrri tímum, en þjóðvegurinn liggur nú fast við
holtið. Hefur það ef til vill átt sinn þátt í vali þessa staðar, en sem
kunnugt er hefur kumlum í fornöld oft verið valinn staður við al-
faraleiðir. En athyglisvert er einnig, áð allt þetta fólk, sem þarna
var grafið, hefur verið innan við miðjan aldur, er það lézt, og mætti