Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1966, Blaðsíða 100
100
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
lækjunum Steinslæk og Rauðalæk og Hrútsvatni. Þegar hann lýsti
Vetleifsholti, en þá jörð átti hann og bjó þar þá, var þar heldur
engin veiði, og er þó vitað, að svo var. Og tengdasonur hans Páll
Hákonarson drukknaði þar við veiðiskap 33 árum síðar. Samkvæmt
fénaðarframtali í Jb. Á. M. var búslóð hans á hvorri jörðinni, Ási
og Vetleifsholti, hlutfallslega eftir jarðarhundruðum miklu minni
en leiguliða hans margra. Að öllu samanlögðu er ekki annað að
sjá en hann hafi verið hreinræktaður fulltrúi hinna yngri jarð-
eigna- og auðmanna, lagt lítið í hættu, haft smábú, en látið sér
líða vel af landskuldum og leigum.
Þau ummæli, að jörðin hafi ekki verið byggð í elztu manna tíð
og löngu fyrr, eru ákaflega teygjanleg og síður en svo ábyggileg,
einkum sakir þess, að þá var nýafstaðinn einhver hinn lengsti og
strangasti harðinda- og aflaleysiskafli, sem yfir landið hefir dunið
frá því um 1670—1705. Og loks mannfallið í Stórubólu 1707. Frá
þeim tíma átti Bjarni um sárt að binda og var orðinn aldurhnig-
inn, er hér var komið, og ekki sérlega bjartsýnn. En ummælin
geta líka verið alveg rétt að því leyti, að Jólgeirsstaðir hafi ekki
verið í ábúð síðustu 50 eða 100 árin eða lengur, eins og fram kom í
fyrrnefndum máldaga-uppskriftum frá Hólum og Skálholti um
1590, þótt ekki væri útilokað, ef hér hefði verið um venjulega jörð
að ræða, að hún hefði þó komizt í ábúð öðru hverju.
Sú staðhæfing, að jörðin kunni aldrei aftur að byggjast, er í
sjálfu sér í engu frábrugðin sams konar ummælum, bæði hans (t.
d. um kotin hjá Ási, Pétursbýli og Hellir í Vetleifsholtahverfi) og
annarra eigenda og umráðamanna, um aðrar jarðir og kot, sem þá
voru í eyði um allt land, en sannarlega komust í ábúð aftur, í hinum
langa góðæriskafla á árunum 1706—1751. Það verður því að lesa
þessa lýsingu Bjarna með mikilli gætni.
Jólgeirsstaða er hvergi getið í vísitazíum biskupanna Jóns Árna-
sonar og Ólafs Gíslasonar. En Finnur biskup Jónsson man allt í
einu eftir þeim og setur þessa klausu í vísitazíu sína 18. ágúst 1757:
„Item á hún (þ. e. Áskirkja) Jólgeirsstaði, sem standa á sandi og
nú eru í eyði“.
Engar sagnir virðast til um það að Jólgeirsstaðir hafi aftur
komizt í ábúð á þessu hálfrar aldar tímabili: Viðbótin „og nú eru
í eyði“ gætu bent til þess. Svo þarf þó ekki að vera, heldur upp-
tugga frá 1685 og Jb. Á. M.
Þessi sama frásögn stendur orðrétt í síðari vísitazíu Finns og
þeirra biskupanna Hannesar Finnssonar og Geirs Vídalíns, (t. d.