Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1966, Side 104
104
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Samkvæmt áðurnefndum vísitazíugerðum, 1888 og 1894 virðist
að lokum samkomulag hafi orðið um það, að Ásbóndinn eða bænd-
urnir létu þar allt afskiptalaust, gegn því að hinir slepptu öllu til-
kalli til íhlutunar um rekatimbur og önnur ítök Áss, en um það hefir
verið einhver rekistefna, eins og fram kemur í þinglýsingu í Þjóð-
ólfshaga, 11. júní 1793, þar var meðal annars lesið:42 — — —
„upplesin lögfesta Jóns Eyjólfssonar á Háamúla á eignarjörð hans
Áshól í Holtum með öllum gögnum og gæðum til fjalls og fjöru,
eirnin rekaplátz henni tilheyrandi í Auss fjöru takmörkum."--------
Þá er rétt að geta þess, að á öllum gömlum landsuppdráttum, fram
að 1844, þar sem bæjarnöfn eru sett á uppdrættina, standa Jólgeirs-
staðir þar. Og venjulegast nokkurn veginn rétt staðsettir, sem er
meira en hægt er að segja um margar aðrar jarðir. Staðarnafnið
hefir lengi loðað í minni manna.
X.
Þótt ekkert sandfok komi til eða önnur veigamikil náttúruundur,
má segja, að árlega verði yfirborðsbreytingar á landslagi í Holtun-
um, og þar sem jarðvegur er annars staðar svipaður. Venjulegast
er þessari breytingu ekki veitt athygli, fyrr en hún hefir þróazt
í sömu átt um árabil og landslagið í rauninni breytt um svip, frá
því sem áður var. Þetta á sér einkum stað á mótum mýrar og vall-
lendis, eða þegar mýrarblettir breytast í þurra móa, rima eða
öfugt. Af þessari ástæðu er ógjörningur að gjöra sér nákvæma grein
fyrir hvernig landslagið á þessum slóðum hefir verið, þegar upp-
blásturinn hófst, en í höfuðdráttum má sjá, hvert viðhorfið hefir
verið.
Vestan við Ásana og meðfram þeim hefir verið mýrarsund, að
heita má alla leið austan frá Steinslæk, örmjótt fyrst, en breikk-
aði, er kom vestur fyrir Jólgeirsstaði. Norðan við og meðfram
mýri þessari hefir austast verið örmjó rimateyging eða valllendis-
brún, og hefir gatan frá Sumarliðabæ og að Jólgeirsstöðum legið
eftir eða utarlega í henni. Norður af rimanum hefir tekið við
mýrin, sem nær alla leið niður að læk hjá bænum Áshóli. Riminn
hefir náð frá læknum og allt vestur undir Breiðuvík, eða rétt vestur
fyrir núverandi Sléttuland, og breikkað þar, ef breikkunin stafar
þá ekki af síðari tíma uppblæstri á Selsandi. Vestur af rimanum og
norður af Breiðuvík hefir verið mýrarblettur eða að minnsta kosti
42 Dómabók Rangárvallasýslu 1793.