Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1973, Blaðsíða 20
20
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
staðnum, langoftast yfir liáaltari hennar. Gott dæmi um helgimann,
dýrlingsskrín og höfuðkirkju er sjálfur höfuðdýrlingur Norðurlanda,
Ólafur helgi, og skrín hans í dómkirkjunni í Niðarósi. Þetta fræga
dýrlingsskrín er nú glatað eins og flest eða nær öll önnur slík á Norð-
urlöndum, en Snorri lýsir því í sögu Magnúsar góða í Heimskringlu,
á mjög skilmerkilegan hátt sem nú skal greina:
„Magnús konungur lét gera skrín og búa gulli og silfri og
setja steinum. En það skrín var svo gjört bæði að mikilleik og að
öðrum vexti sem líkkista, en svalir undir niðri, en yfir uppi
vétt vaxið sem ræfur og þar af upp höfuð og burst. Eru á vétt-
inu lamar á bak, en hespur fyrir og þar læst með lukli. Síðan
lét Magnús konungur leggja í skrín það helgan dóm Ólafs kon-
ungs. Urðu þar margar jartegnir að helgum dómi Ólafs kon-
ungs“.4
Þessi lýsing er framúrskarandi góð, hnitmiðuð og skýr, og leiðir
fyrir sjónir ágæta mynd af hinu fræga skríni, þó stutt sé, enda hlýt-
ur Snorri sjálfur að hafa séð skrínið og lýsir því þá eftir sjálfs sín
athugun. Allmörg önnur dýrlingaskrín voru til í höfuðkirkjum Norð-
urlanda, en flest þeirra voru eyðilögð á siðskiptatímunum, því að
ekki voru aðrir hlutir í kirkjunum sem í skjótari svipan gátu svalað
gull- og silfurgræðgi konunga. Yfirleitt er nú fátt vitað um gerð
þeirra og búnað, en flest hafa þau áreiðanlega verið sem stórar kist-
ur eða hús og stóðu á þar til gerðum útbúnaði yfir háaltari dóm-
kirkna5.
Hér á Islandi voru til þrjú dýrlingaskrín fyrir utan öll önnur
helgidómaskrín, sem að vísu voru mörg. Þetta voru skrín biskup-
anna þriggja, Þorláks helga í Skálholti, Jóns helga á Hólum og Guð-
mundar góða á Hólum. Þau eru nú öll glötuð. Hólaskrínin voru enn
til þegar Sigurðarregistur var gert árið 1550, en hafa horfið fljót-
lega eftir það og er ekki mikið um þau vitað, hvernig voru að efni
og gerð.
Um Þorláksskrín í Skálholti gegnir öðru máli. Það var til fram
yfir 1800, að vísu nokkuð illa til reika. Um sögu þess er þessu grein-
arkorni ætlað að fjalla, þótt ekki muni auðnast að leiða í ljós mikinn
nýjan sannleik um það. Það er yfirleitt heldur dapurlegt að skrifa
um glataða listmuni eða forngripi og lítið ábatavænlegt. En dýrl-
ingsskrín heilags Þorláks var um langan aldur höfuðprýði dómkirkj-