Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1973, Blaðsíða 28
28
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Löngu seinna skrifaði svo séra Jón Halldórsson nánari lýsingu á
meðferð Gissurar á skríninu. Hefur hann þó varla haft annað við
að styðjast en frásögn séra Jóns Egilssonar og ef til vill sögusagnir
en þó einkum það sem hann hefur talið liggja í hlutarins eðli. Þetta
er í þættinum um Gissur Einarsson24, og þarf ekki að taka það upp
hér af því að það er aðeins önnur útfærsla á því sem hann hafði
skrifað í þættinum um Þorlák biskup, en sá hluti biskupasagna hans,
þ. e. um kaþólsku biskupana, hefur ekki verið gefinn út. I Lands-
bókasafni er handrit skrifað eftir eiginhandarriti séra Jóns af þessu
riti, og þar segir svo í þættinum um Þorlák helga:
„---------Var þá skríni Þorláks biskups útborið í kringum
kirkju og kirkjugarðinn með hinni stærstu processione, hring-
ingu, söngum, ljósakveikingum og öðrum hégóma ceremonium;
að fá að bera skrínið, eður ganga undir því, var reiknað fyrir
hina stærstu æru og syndakvittun. Vóx þessi hjátrú meir og
meir fram eftir seinni tímunum og varaði allt til þess Gissur
biskup Einarsson aftók hana og aftraði, sem hann kunni. Var
þá skrínið rænt og ruplað sínum prýðilega búningi og dýrgrip-
um“25.
Trúlegt er að þessi lýsing Jóns Halldórssonar á þeirri meðferð,
sem skrínið sætti af Gissuri biskupi sé ekki langt frá lagi. Og fróð-
legt er að sjá að honum svellur allt í einu móður út af þessum aðför-
um, þótt hann sé annars lítið hrifinn af dýrkun skrínisins og Þor-
láks helga.
Eftir lát Gissurar tók Jón Arason staðinn í Skálholti á sitt vald
og reyndi að endurreisa það sem Gissur hafði svívirt að hans dómi,
meðal annars hreinsaði hann kirkjuna. Ekki er þess getið að hann
hafi látið setja skrínið aftur á sinn stað, þótt líklegt sé það. En þessi
dýrð stóð ekki lengi. Jón Arason féll, og hið forna helgiskrín átti
sér ekki viðreisnar von.
Og líða nú tímar þangað til langt er liðið á 17. öld. Brynjólfur
biskup Sveinsson bar meiri virðingu fyrir kaþólskum sið og minj-
um hans en aðrir lúterskir biskupar. Þangað á það rót sína að rekja,
að hann fer að sýna Þorláksskríni sóma. 1 afhendingarskrá, sem gerð
er 8. júlí 1674, þegar Brynjólfur biskup afhendir eftirmanni sínum
Þórði biskupi Þorlákssyni stað og kirkju í lifanda lífi, er skrínisins
getið eftir langa þögn og þá á þessa leið: