Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1973, Blaðsíða 117
PUNKTAR UM HRAUNÞÚFUKLAUSTUR
117
—159. Þetta er mikið greinargóð lýsing, en bætir engu við Margeir
Jónsson, 2.8, nema ef vera skyldi lítið eitt öðru vísi afbrigði af sög-
unni um smalann og strokkinn, sbr. 4.9.
2.10. Þormóður Sveinsson á Akureyri er sennilega allra núlifandi
manna kunnugastur í Vesturdal, ólst að miklu leyti upp á Þorljóts-
stöðum, fæddur 22. sept. 1889. 1 grein sinni um Hofsafrétt í Göng-
ur og réttir II, Akureyri 1949, bls. 232 o. áfr., getur hann hvað eftir
annað um Hraunþúfuklaustur í sambandi við smölun. Þetta hefur
sjálfstætt gildi þegar reynt er að gera sér grein fyrir hlutverki stað-
arins fyrr á tíð. Dálítið má einnig finna um þetta efni í bókum Þor-
móðar, Minningar úr Goðdölum og misleitir þættir I—II, Akureyri
1967—69. — Sbr. 3.2.
2.11. Loks er þess að geta sem mjög mikilvægrar heimildar um
Hraunþúfukiaustur, að Sigurður Þórarinsson fór þangað sumarið
1970, gróf reynslugrafir ofan 1 tóftirnar og sá, að hreyfðir steinar
voru þar undir hvíta öskulaginu frá Heklu 1104, sem lætur mjög
mikið á sér bera á vestanverðu Norðurlandi. Sjá Morgunblaðið 5.
ágúst 1970. Þetta ætti að vera örugg sönnun þess, að rústirnar séu
eldri en frá 1104, enda kemur það síður en svo í bága við útlit þeirra
nú, sbr. 1.4.
3. Staðhættir og landslag.
3.0. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir staðháttum og lands-
lagi í Hraunþúfuklaustri. Það mun láta nærri að vera 10 km fyrir
framan Þorljótsstaði, sem nú eru löngu í eyði, en voru lengi fremsti
byggði bærinn, en um 15 km framan við Gilja, sem nú eru fremsti
byggði bær í Vesturdal. Staðurinn er inni á sjálfu hálendi landsins.
Mælt í beinni línu á korti eru nær 78 km frá Sauðárkróki að Hraun-
þúfuklaustri, en þaðan og að Hofsjökli aðeins um 20 km. Hraun-
þúfuklaustur er í dalkvos allra fremst í Vesturdal, rétt þar fyrir
neðan (og vestan) sem saman koma Runukvísl (austar) og Hraun-
þúfuá (vestar) og brjótast báðar fram úr hálendisbrúninni í feikn-
legum hamragljúfrum, mynda síðan saman Hofsá, sem svo heitir
niður allan Vesturdal. Þessi miklu árgljúfur setja tröllaukinn svip
á dalbotninn, þar sem rústirnar eru, rétt vestan við ána. Daniel
Bruun lýsir staðháttum lítillega, sbr. 2.3, 2.4, 2.5, en betri eru lýs-
ingar Hallgríms Jónassonar, 2.9, og þó einkum Margeirs Jónssonar,
2.8, og verður ekki betra gert en taka upp lýsingu hans.