Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1994, Qupperneq 124
128
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
væri mögulegt að draga af rannsóknum á borð við þær, sem kynntar eru í
ritinu, né freistar þess að setja viðfangsefni sitt í víðara samhengi og sýna
fram á, hversu víðtæk skírskotun þeirra gæti verið við þekkingaröflun á
íslensku þjóðfélagi og menningu í sögu og samtíð.
Miklu skiptir þó, hversu mikinn fróðleik Árni Björnsson hefur dregið
saman um hátíðahald og merkisdaga á íslandi og þau lofsverðu skýrandi
og túlkandi efnistök, sem hann beitir víða í riti sínu til að hrekja fyrri skýr-
ingar eða tilgátur, sem festst hafa í fræðiritum. Höfundur dregur og víða
ályktanir af einstökum afmörkuðum þáttum rannsókna sinna. Árni
Björnsson nefnir (bls. 766), að hann vonist til, að rit hans geti myndað ís-
lenskt framlag til áframhaldandi samanburðarrannsókna á hátíðasiðum
ársins. Þessu marki hefur hann efalaust náð með umfangsmiklu og á sum-
um sviðum traustu yfirlitsverki sínu. Ég vil því ljúka máli mínu með því
að óska honum til hamingju með glæsilegan afrakstur umfangsmikillar
efnisöflunar, sem hann hefur lagt stund á undanfarin ár og áratugi og
mun lengi sjá stað í umfangsmiklu gagnasafni þjóðháttadeildar Þjóðminja-
safns og í fjölda ritverka, þar á meðal stórvirkinu Sögu daganna, sem ég
nú hefi sagt kost og löst á út frá mínum bæjardyrum séð.
Ræða Nönnu Hermansson
Þegar Hjalti Hugason Imfði lokið máli sínu tók til máls hinn andmælandinn,
Nanna Hermansson, safnstjóri borgarsafnsins í Stokkhólmi (Stockholms Stads-
museum), áður borgarminjavörður í Reykjavík. Fer ræða hennar hér á eftir, lítil-
lega stytt.
Rektor Háskóla íslands, deildarforseti heimspekideildar, heiðraða dokt-
orsefni, Árni Björnsson, góðir áheyrendur.
Fyrst vil ég þakka það traust og þann heiður sem mér er sýndur þegar
ég er beðin að koma heim og andmæla doktorsritgerð þessari, Sögu
daganna.
Árni, safnvörður og kollega. Fyrst vil ég taka fram að hvaða aðfinnslur
sem ég kann að koma með skaltu vita að mér finnst óþarfi að þú skulir
biðjast afsökunar á þessari merku bók í fyrstu grein hennar.
Mér þótti stórkostlegt að fá svo fallega unnið verk í hendur, og eiga allir
sem koma þar við sögu heiður af því. Handbókin er aðgengileg á allan
hátt, uppsetning til fyrirmyndar og prentvillur örfáar. Ljósmyndirnar eru
margar skemmtilegar, en eina mætti þó skoða betur. Jólasveinninn á bls.
349 er „með gjafapoka á hjólum", en svo er ekki, heldur stendur bara fall-
byssa á gólfinu, enda er Árni enginn hermaður.