Eimreiðin - 01.07.1899, Blaðsíða 53
J73
manna, sem Grímur safnaði saman og festi inn í bók til hægðar-
auka fyrir húsbónda sinn. Johnson hafði verið að aðgæta kjör-
skrárnar, og talist svo til, að ef enginn þeirra, sem höfðu heitið
honum atkvæðum, gengi úr leik, þá mundi hann hafa hundrað
atkvæði umfram andstæðing sinn. 6o kjósendur voru fjarverandi,
og tólf voru dánir. Hvað hina dánu snerti, þá taldi hann sér vís
atkvæði þeirra, ef kjörstjórinn aðeins yrði sér velviljaður, og um
það„efaðist hann ekki, því hann mátti tilnefna hann sjálfur. En
hinum fjarverandi ásetti hann sér að smala saman, ef hann gæti.
»Við skulum nú aðgæta,« sagði hann við Grím, »hvernig við
erum búnir undir kosningarnar. Ég keypti fimm tunnur af whisky
(við getum vatnsblandað það til helminga) og hefi samið við tvo
vínsölumenn að sjá um, að mínir menn fái vin eins og þeir vilja.«
»Rétt!«
»Og tíu menn hefi ég stöðugt á ferðinni til að útvega mér
atkvæði. Ég borga hverjum þeirra fimm dollara á dag.«
»Einmitt?«
»En nú er enn eftir að tala við landa í suðurhluta bæjarins.
Til þess sé ég engan færari en þig, því ég hef ekki tíma til að
fara þangað sjálfur. Ég ætla að senda þig þangað í dag.«
»Rétt!«
»Þú verður að fara klóklega að, því þeir eru varkárir þar.
Mundu eftir að taka með þér nóg vín, og sparaðu það ekki; það
er oft betra en langar stjórnmálaræður.«
»Já, einmitt!«
»Gættu að því að fá konurnar á þitt mál. Þær eru vanalega
auðunnar, því þeim þykir heiður í því, að talað sé við þær um
stjórnmál. Segðu þeim, að ég ætli að útvega þeim kosningarétt.
Láttu þér ekki koma til hugar að vinna mennina, nema þú hafir
konurnar góðar fyrst. Þá eru mennirnir sjálfsagðir líka, því ann-
ars hafa þeir ekki frið á heimilum sínum.«
»Öldungis rétt! Bara þær mættu kjósa, þá væri gaman að
vasast i kosningum.«
»Taktu með þér peninga, en ekki skaltu sarnt kaupa atkvæði
fyr en í fulla hnefana. Vertu duglegur að tala, og veittu óspart
vin. Ef þú hittir nokkra, sem hafa lofað Mr. Moore atkvæðum,
þá reyndu umfram alt að fá þá til að svíkja hann. Slettu í þá
fimm eða sex dollurum, en farðu varlega að því; ef það kemst
upp, er ógæfan vís.«