Eimreiðin - 01.07.1899, Blaðsíða 100
220
Það var eins og þessi hugsun friðaði hana snöggvast.
í siðustu regnhryðjunni hatði skýmökkvinn sigið niður undir
miðjar hlíðar, svo hafði hann lyft sér snögglega aftur. Það lyfti
dálitið undir í norðrinu og í sama bili brá daufum roða á heiðar-
brúnina og regnþyknisskörina, sem á henni hvíldi. Það var endur-
skin af hinum seinustu, margbrotnu geislum vorsólarinnar, sem
fyrir stundarkorni var horfin fyrir hafsbrún.
Roðinn hvarf skjótt, — eftir fáein augnablik og hin úrsvala,
húmdimma vornótt grúfði sig yfir alt þögul og kyr.
»Þið sjáist aldrei framar,« sagði hún í hálfum hljóðum; orðin
voru borin fram af djúpu, þungu andvarpi. Það var eins og
brjóstið ætlaði að springa, og nú féllu tárin tið og þung eins og
steypiregnsdropar.
»Elskan mín!« var sagt með lágum stunuróm, »reyndu að
vera róleg.« Hún hrökk við, stóð upp og laut niður að honum.
Hann klappaði á kinnina á henni og strauk af henni tárin. »Þú
hefur lofað mér, að reyna að vera róleg.« Meira gat hann ekki
sagt; stunurnar urðu þyngri og tíðari og eftir örfá augnablik var
hann farinn að háhljóða. Hún kallaði fram fyrir húsdyrnar á
bróður hans, sem var vanur að hjálpa henni til að hagræða hon-
um, þegar hann fékk kvalaköstin.
Hann bylti sér í rúminu viðþolslaus. »Bara þetta yrði nú
síðasta kastið,« heyrðist óglögt milli hljóðanna. »Guð hjálpi mér,
þessa hefur hann aldrei óskað fyrri,« sagði hún með grátekka og
sneri sér fram að glugganum. »Ó ég vildi þó heldur að hann
dæi núna, en þegar hann er kominn frá mér,« hugsaði hún, —
»en ég veit samt ekki, ég má ekki hugsa til þess.«
Hann hafði reist sig upp í fangið á bróður sinum, en hneig
nú örmagna aftur á bak á koddann. »Ætli það sé nú ekki búið,
— hvar eru börnin,« sagði hann með þungri geðshræringu.
»Þau eru sofnuð fyrir löngu,« sagði hún grátandi, um leið
og hún sneri sér að rúminu og tók annari hendinni um úlfliðinn
á honum, en studdi hinni á brjóstið. Hún skildi vel, hvers vegna
hann spurði eftir börnunum. Þegar hún fann, að hjartslátturinn
var líkur og vant var i kvalaköstunum, varð hún rólegri. Kval-
irnar virtust lika vera að minka og hann hætti von bráðar að
hljóða.
*