Eimreiðin - 01.07.1899, Blaðsíða 12
132
til bana og frysta í gegn. Vera má, að hún muni þó eftir þessu,
en að hún láti það ekki á sig fá.
Steggi og kvennfugl sitja sitt á hvorum hávaða, horfast í
augu og gera sér tæpitungu hvort við annað. En um leið og
þau horfast i augu, horfa þau beint inn í sælunnar heimkynni
— inn i einveldi ástarinnar.
En smámsaman skjótast þau á flug í misháum, bogadregnum
línum. Svo drepa þau sér skyndilega niður, tína sinustrá í nefin
og hárslæðing af búfénu og skjótast með inn i holur sínar, þar
sem þau hafa dyngjur sínar í sniðum. En áður en þau stinga
sér á hvarf í holumunnann, skygnast þau í allar áttir, snúa upp á
hálsinn, og skima kring um sig og gæta vandlega að, hvort eitt-
hvert óvinarauga sé ekki í nánd, sem fylgi þeim eftir.
Þau hafa strengt trúnaðarheit sín í viðurvist vorgyðjunnar.
Sameiginlegur vilji beggja gaf þau saman í hjónaband, sem haldast
skyldi til þess, er ungarnir kæmust á fót og flug. Þessi fiðruðu
guðsbörn hafa einn gest að eins í boði sínu — hamingjuna.
*
Rjúpurnar bæla sig á fönnunum og lúpa sig niður. Þær eru
ekki enn þá orðnar svo dökkar á dúninn, að þeim sé óhætt á
auðu flákunum fyrir háltbróður sínum, valnum. Vaninn er lika
búinn að hagspekja þær á fönninni. Fannirnar eru orðnar rjúp-
unum kærar og rjúpurnar fönnunum skuldbundnar; því að þegar
hríðin skefldi yfir þær í skjólleysu vetrarins, sátu þær i holunum
dægrunum saman, þangað til forðabúr þeirra (sarpurinn) var tæmt
og sulturinn rak þær á fætur.
Þó eru nú kvennrjúpurnar teknar að búast til brottfarar frá
þeim, — búnar að skifta litum í vöngunum og setja á sig konu-
strútinn gráa.
Þær eru gæfar, nálega sem alifuglar, og óttast ekki manninn,
fremur en hann væri verndari þeirra og bjargráður. Þó skaut
hann þúsundum þeirra bana i brjóst á síðasta hausti, og engu færri
haustin þar áður. Og auk þess særði hann fjölmargar holundar-
sárum, sem þær fengu bana af, og urðu svo hröfnum og refum
að bráð úti um víðavanginn.
Skyldu þær vera búnar að gleyma þessum meingerðum?
Eða eru þær svona sáttgjarnar?
Hvort munu þær hyggja, að hann hafi bætt ráð sitt síðan?
Sé svo, þá hefir þeim skjátlast hraparlega; því að fyr mun