Eimreiðin - 01.07.1899, Blaðsíða 101
221
II.
»Hvað varstu að segja áðan, elskan mín?« spurði hann að
nokkrum tíma liðnum, þegar bróðir hans var farinn, »mér heyrðist
þú segja þegar jeg vaknaði: »Þið sjáist aldrei framar«. Ertu hrædd
um að við sjáumst aldrei framar, ef ég fer að ráðum læknisins?«
»Já, er það ekki von, að ég sé hrædd? Þú hélst sjálfur áðan
að þú mundir deyja, og þú íinnur bezt hvað þér líður.«
»Mér fanst áðan, að ég ætlaði ekki að hafa það af; mátturinn
þverrar eins og eðlilegt er, en annars lítur út fyrir, að ég sé seigari
en ætla mætti.«
»Máske guð gefi að það ráðist alt betur en áhorfist nú. En
ég get ekki gjört að því, þó ég sé hrædd.«
»Það er eðlilegt að þú sért hrædd um að ég deyi, því nú
sem stendur er ekkert líklegra; en ég skil ekki, að þú getir verið
hrædd um, að við sjáumst aldrei framar, þó ég sigli.«
»Nú skil ég þig ekki.«
»Þú trúir á annað líf og þá . . .«
»Ja — en . . .«
»Já þú efast máske um, að fundum okkar beri þar saman?«
»Þú trúir ekki að annað lif sé til eftir þetta.«
»Nei, en ég neita því heldur ekki og er jafnlangt frá því, að
vera sannfærður um að það sé ekki, eins og að það sé.«
»Finst þér að þú getir dáið rólegur og vera í þessari óvissu?«
»Já, þess vegna get ég tekið dauðanum með ró. Sé til annað
líf eftir þetta, þá lifi ég eins og aðrir, hvort sem ég trúi því eða
ekki; það gjörir hvorki til né frá.«
»En trúin getur máske haft einhver áhrif á það, hvernig lífið
verður hinumegin?«
»Það get ég ekki hugsað mér. Þú heldur máske, að mér líði
ekki eins vel vegna vantrúar minnar eða efans, eins og ykkur trú-
aða fólkinu, og óttast þess vegna, að vegir okkar muni skilja fyrir
fult og alt í dauðanum?«
»Æ ég veit varla hvað ég held eða hverju ég trúi.«
»Veiztu ekki hverju þú trúir? Þú ert þó ekki líka farin að
efast . . ,?«
»Jú því miður er jeg farin að efast um, hvort það sé nú
virkilega nokkurt líf til eftir þetta. Síðan ég fór að verða hrædd
um, að ég misti þig, þá hefur þessi spurning hvað eftir annað