Andvari - 01.01.1993, Page 24
22
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
ANDVARI
hann hélt suður í éljaveðri eftir kosningabaráttuna haustið 1942, að
ungur maður hafi verið í för með sér, Pálmi Jónsson frá Hofi.21 Var
Pálmi á leið í háskólanám. Þá um sumarið, skömmu eftir stúdents-
próf, hafði hann kynnst ungri blómarós, Jónínu Sigríði Gísladóttur.
Hún fæddist 8. desember 1921 í Reykjavík, dóttir hjónanna Sigurðar
Gísla Sigurðssonar, sjómanns frá Eyrarbakka, og Lilju Guðmunds-
dóttur. Sigurður Gísli fæddist á Eyrarbakka árið 1900, sonur Sig-
urðar Gíslasonar, trésmiðs og múrsmiðs þar, og fyrri konu hans, Jón-
ínu Björnsdóttur frá Gljúfurárholti í Ölfusi.22 Lilja, kona hans og
móðir Jónínu Sigríðar, var fædd árið 1900. Faðir hennar, Guðmund-
ur Þórðarson, húsasmiður í Reykjavík, síðar útgerðarmaður í Garð-
inum,23 átti hana fyrir hjónaband með Helgu Jóhannsdóttur frá
Laxfossi í Stafholtstungum, en með konu sinni átti hann síðar hvorki
meira né minna en fjórtán börn. Jónína Sigríður, sem jafnan er köll-
uð Stella, missti móður sína þegar hún var aðeins tæplega sex ára
gömul, og ólst hún eftir það upp hjá föður sínum og stjúpu í Hafnar-
firði. Hún gætti á unglingsárunum barna fyrir húsfreyju í Hafnar-
firði, Sjöfn Sigurðardóttur, og varð eftir það heimagangur þar.
Reyndist Sjöfn henni mjög vel, en faðir hennar drukknaði, þegar hún
var tvítug að aldri. Fórst hann með togaranum Sviða 2. desember
1941.
Eftir að Jónína lauk námi, stundaði hún aðallega verslunarstörf,
meðal annars í Pennanum, sem þá var á horni Ingólfsstrætis og Póst-
hússtrætis, í skartgripaverslun Magnúsar Baldvinssonar við Lauga-
veg 12 og í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Hún hafði útþrá eins og
títt er um íslendinga, og tókst henni með elju og útsjónarsemi að
safna nægu fé, auk þess sem henni hafði tæmst nokkur arfur eftir
föður sinn og afa, svo að hún gat dvalið árið 1950 við nám í ensku og
frönsku í Parísarborg. Þar kynntist hún mörgum löndum, sem hittust
iðulega í Montmartre-hverfinu, á veitingastaðnum Sélect eða á kaffi-
húsinu La Dome þar skammt frá. Á meðal íslendinga í París á þeirri
tíð voru þau Valtýr Pétursson listmálari, Gerður Helgadóttir mynd-
höggvari, Hörður Ágústsson listmálari, Pétur Björnsson, síðar for-
stjóri Verksmiðjunnar Vífilfells, Pétur Guðfinnsson, síðar fram-
kvæmdastjóri Sjónvarpsins, og tvær vinkonur Jónínu, þær Katrín Ól-
afsdóttir, kona Guðna rektors Guðmundssonar, og Kristín
Guðjohnsen. Jónína fékk mikinn áhuga á myndlist í París og reyndi