Andvari - 01.01.1993, Page 100
ANDRÉS BJÖRNSSON
Um Grím Thomsen og raunsæið
Þorsteinn Erlingsson skáld ritstýrði blaðinu Bjarka á Seyðisfirði um skeið
eftir að hann fluttist alkominn heim eftir langa útivist í Kaupmannahöfn á
haustdögum 1896. - Snemma árs (30. jan.) 1897 birti hann í blaði sínu eftir-
mælagrein um Grím Thomsen sem látist hafði í nóvember 1896.
Þorsteinn mun á þessum árum hafa hallast að kenningum Brandesar og
Verðandimanna og verið í mörgu allróttækur raunsæismaður. Raunar hafði
kastast í kekki með þeim Gesti Pálssyni, er hinn síðarnefndi ritstýrði
Suðra. Verður ekki annað séð en Gestur hafi ráðist gegn Þorsteini, ungum
stúdenti, alveg upp úr þurru og vefengt stúdentspróf hans. Varla getur það
talist gild ástæða til andúðar Gests á Þorsteini þótt rómantísk skáld, Stein-
grímur Thorsteinsson og Matthías Jochumsson, hefðu fundið þennan pilt í
Fljótshlíðinni og stutt hann til náms.
Milli þeirra Þorsteins og Gests gat því varla verið um mikinn samúðar-
skilning að ræða, en báðir gerðu þeir sér títt um Grím Thomsen, þótt til
þess lægju nokkuð ólíkar ástæður.
Það kemur fremur undarlega fyrir sjónir, að Þorsteinn skuli mæla eftir
þennan „ramma afturhaldsmann“, og það því fremur sem skilja verður orð
hans svo að hann hafi hvorki séð Grím né heyrt í lifanda lífi.
Eitthvað kann það að hafa hvatt Þorstein til að taka upp pennann að
Skapti Jósefsson, sem nýlega hafði látið af ritstjórn Austra - líklega hálf-
gildings keppinautur í blaðaútgáfunni, hafði ritað minningargrein um Grím
og birt í blaði sínu 8. janúar 1897. Skapti hafði kynnst Grími á Hafnarárum
sínum og fer fögrum orðum um „Jólnasumbl“ Gríms, gestrisni hans, þegar
hann bauð til sín ungum íslendingum og fræddi þá af „alheimsmenntun“
sinni og „víðsýni á lífinu“ og las þeim kvæði sín.
Þess skal einnig getið að austfirskt skáld hefði getað ýtt á eftir Þorsteini,
það var Páll Ólafsson, mikill aðdáandi Gríms og Ijóða hans. Þeir ortust á
og munu hafa kynnst, þegar Grímur sótti konuefni sitt austur að Kolfreyju-
stað auk þess sem þeir sátu um skeið samtímis á Alþingi. Páll tengir saman
sjálfan sig, Grím og Þorstein Erlingsson í þessari vísu:
Þegar mín er brostin brá,
búið Grím að heygja,
og Þorsteinn líka fallinn frá
ferhendurnar deyja.