Andvari - 01.01.1993, Page 112
ÚLFAR BRAGASON
Orð vex af orði
Um sjálfsævisögudrög Stephans G. Stephanssonar
i
Fæddur 3. okt. 1853 á Kirkjuhóli - ekki Kirkjubóli, eins og víða hefir prentazt - næsta
bæ suður frá Víðimýri, „undir Vatnsskarði“ (var í eyði 1917), í Víðimýrarsókn, Seylu-
hreppi í Skagafirði. Ég hefi verið sagður fæddur 4. okt. Pað er eflaust villa úr kirkju-
skrá Víðimýrarkirkju. Tók fyrst eftir því í vottorði prestsins, sem fermdi mig (Hannes
Arnórsson í Glaumbæ), sem hann gaf mér, þegar ég fluttist norður í Bárðardal. For-
eldrar mínir munu hafa vitað þetta og munað rétt. Þau voru skynsöm, vel minnug og
tímaglögg [IV: 79].
Þannig byrjar Stephan G. Stephansson þátt þann sem hann kallaði Úrlausn
en Þorkell Jóhannesson nefndi Drög til œvisögu í útgáfu sinni. Þorkell birti
þáttinn í fyrsta skipti eftir handriti Stephans, sem hann hafði gefið Baldri
Sveinssyni ritstjóra (1883-1932) útgáfuréttinn að, í Andvara 1947 og aftur í
fjórða og síðasta bindi af Bréfum og ritgerðum Stephans sem kom út ári
seinna.1
Hér er ætlunin að fjalla um tildrög þess að Stephan skrifaði æviágripið,
einkenni þess og þá sjálfslýsingu sem þar kemur fram. Áhuginn á ritverk-
um Stephans er vafalaust að einhverju leyti sprottinn af skrifum Sigurðar
Nordals og Þorkels Jóhannessonar um höfundinn en þau og útgáfur þeirra
á kvæðum hans, bréfum og ritgerðum festu honum sess meðal fremstu ís-
lenskra skálda.2 Grein þessi væri hins vegar ekki skrifuð nema af því að
Stephan ritaði æviágrip sitt og sá texti er til orðinn fyrir beiðni Baldurs
Sveinssonar en hann vildi fá upplýsingar hjá Stephani til að geta skrifað um
hann sjötugan. Þannig vex texti af öðrum texta og svo koll af kolli.
II
í bréfi til Stephans G. dagsettu í Reykjavík 23. janúar 1923 ritar Baldur
Sveinsson:
Ef ég lifi lengi, vildi ég eitthvað skrifa um þig. Vera má, að ýmsir verði til þess og þú