Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Síða 20
Rætt við Jónas Pálsson
rauninni frumkvæði að þeirri þróun en Sálfræðideild skóla var mikilvægur aðili að
framkvæmdinni og raunar held ég megi segja að starfsemi deildarinnar hafi verið
forsenda að forvarnarstarfi í yngri deildum barnaskólanna sem hófst um þessar mundir og
hér er ekki unnt að lýsa. Liður í því var notkun skólaþroskaprófs, hópprófs, kennt við
sænskan kennara, Levin að nafni. Ég minnist óeigingjarns starfs margra kennara frá
þessu tímabili með aðdáun og þakklæti.
Fræðsluskrifstofan veitti mér við upphaf starfsins leyfi til að kynna mér þessa
þjónustu á Norðurlöndum. Ég var við Sálfræðideild skóla í Osló í þrjá mánuði frá
áramótum 1961. Þar voru mjög klíniskar áherslur og lítið samstarf við kennara.
Sjálfsagt hefði verið hyggilegra að fara til Danmerkur. En miklar breytingar voru á
döfinni í Osló og það gaf gott tækifæri til að glöggva sig á þróun mála. Oddvar
Wormeland, sem þá kenndi uppeldisfræði við Pedagogisk Forskningsinstitut, síðar
fræðslustjóri í Osló, kom mér í kynni við dr. Hans Jörgen Gjessing, sem þá var
forstöðumaður Skolepsykologisk kontor í Drammen. Þar voru starfshættir og skipulag
mjög ólíkir því sem var í Osló. Mikil áhersla var lögð á samstarf við skólana og
stuðning við kennara í starfi. Dr. Gjessing var mér ákaflega vinsamlegur og ég eyddi
mestu af tíma mínum í Drammen síðustu vikurnar. Fyrir atbeina Jónasar B. Jónssonar
kom dr. Gjessing í heimsókn til Reykjavíkur næsta sumar á vegum Fræðsluskrifstofu
Reykjavíkur, flutti fyrirlestra og gaf ráð um uppbyggingu deildarinnar. Dr. Gjessing
kom raunar aftur seinna í heimsókn og þá átti Kennaraskóli íslands aðild að komu hans
vegna fyrirhugaðs náms í sérkennslufræðum. Dr. Gjessing var þá orðinn skólastjóri
Statens Speciallærerskole í Osló, en síðan tókst náið samstarf milli þessara skóla, sem
enn stendur og hefur verið mikilvægt fyrir menntun sérkennara á íslandi og
uppbyggingu þess náms við Kennaraháskólann.
Þarna var ég fram á haustið 1971, samtals 1 1 ár, eða þar til ég tók við starfi
skólastjóra í Æfingaskólanum. - En ég má til að koma hér að smáinnskoti.
Fyrir tilstuðlan góðra manna var mér veittur styrkur úr Fulbright-sjóðnum til
framhaldsnáms í Bandaríkjunum. Fræðsluskrifstofan og Reykjavíkurborg veittu mér
ársleyfi á fullum launum árið 1965-66 en slíkt var sjaldgæft á þeim tíma. Ég var svo
við nám þennan vetur í Teachers College, Columbia University í New York og lauk
M.A.-prófi í uppeldissálarfræði í júní 1966. í náminu valdi ég einkum kúrsa í
ráðgjafarsálfræði, félagssálarfræði og námssálarfræði.
I fyrsta sinn eftir að ég kom í háskóla fór ég að taka sæmileg próf og mig langaði til
að halda áfram námi en allar mínar aðstæður gerðu slíkt ókleift. Ingunn kona mín hafði
eins og alltaf áður staðið fyrir sínum hlut og okkar beggja og komið krökkunum, sem
nú voru orðnir fimm, klakklaust gegnum veturinn og hafði hún þó ekki úr miklum
peningum að spila. Það hafði ég ekki heldur - verst var að geta lítið sem ekki sótt lista-
samkomur í stórborginni - mér þykir alltaf vænt um ófreskjuna New York á
Manhattan, þar varð ég 42 ára loks fullorðinn - að svo miklu leyti sem ég verð það
nokkurn tíma. - Það er raunar skrýtið að ég kann alltaf heldur vel við mig í stórborgum
þó ég telji mig vera óskaplegan sveitamann og heimalning.
18