Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Side 29
Ásgeir Beinteinsson
Okkur tókst með handapati að skilja hvor annan nægilega vel til þess að koma
okkur báðum ásamt töskum út í rafmagnslestina sem flutti okkur til Reykjavíkur. A
umferðarmiðstöðinni beið Lí-fjölskyldan eftir okkur, brosmild og hressileg að vanda.
Eg þakkaði Lí gamla fyrir að treysta mér til að sækja strákinn. Það verður að
viðurkennast að verkefnið fékk ég að hluta til vegna kunningskapar við Lí, en við
unnum saman í nefndinni hér um árið sem fjallaði um sjálfræði ólíkra kynflokka. Við
leystum að vísu aldrei það mál en okkur tókst að útskýra og grafast fyrir um frum-
forsendur þeirra skoðana sem voru í gildi, þannig að Alþingi gæti sett almenn lög til að
tryggja rétt ólíkra hagsmunahópa í landinu.
Ég yfirgaf Lí-fjölskylduna, kvaddi og gekk heimleiðis. Það hafði verið ákveðið að ég
kæmi eftir tvo daga til að fylgja drengnum í skólann. Haustmorgunninn var svalur, það
ýrði úr honum og ég vaknaði af þessari sælu hugsun um fjölskylduna austurlensku sem
nú hafði bæst einn meðlimur, óvænt.
Ég átti að hitta skólastjórann kl. 1030 svo enn var nokkur tími til stefnu. Ég ákvað
því að fá mér hressingu á Torginu, lítilli kaffistofu sem er í nágrenni gamla
Lækjartorgsins.
Mér varð hugsað til þess hvernig Lækjartorgið var þegar ég var strákur. Nú er þar
allt með öðrum svip. Yfirbyggingin með blálituðu glerinu einangrar frá misjöfnum
íslandsvindunum sem plaga menn sýknt og heilagt. Raflestirnar renna inn í hvelfinguna
með einkennilegum þyt og raddir farþeganna endurkastast þegar þeir stíga út á
brautarpallana. Hér áður fyrr var alll undir berum himni og díselvagnarnir spúðu olíu-
stybbunni yfir menn og málleysingja.
Þýð kvennmannsrödd hljómaði úr hátalara í hvelfingunni: „Kjarni eitt, Torg -
Austurbær, fer 1002, vagninn er á línu eitt”.
Ég lauk úr bollanum og renndi kortinu mínu í gegnum gjaldmælinn um leið og ég
gekk út. Notalegur bjölluhljómur kvað við og ég brosti, minnugur þess að í gamla
daga þurfti að bera á sér peninga til að greiða fyrir flest það sem maður keypti, bæði
smátt og stórt, mjúkt og hart.
Kjarni eitt var fljótur í förum enda rennur hann að hluta til í göngum undir
miðbænum og kemur ekki upp fyrr en á Kringumýrartorgi. Það kom sér ágætlega fyrir
mig þar sem ég ætlaði í gamla Æfingaskólann. í dag heitir hann reyndar Kringluskóli
enda dregur allt hverfið nafn sitt af því mikla athafnasvæði.
Ég gekk frá Kringlutorginu. Var svolítið feginn að komast undan hvelfingunni og
út undir bert loft. Hvelfingarnar eru ágætar en það er eins og loftið inni í þeim verði
stundum of þungt. Rigningin var hætt og angan hreinleikans var í loftinu. Mér fannst
eitt augnablik eins og vorið væri á næsta leiti. Það er undarlegt hvernig haustdagar
líkjast svo mjög vordögum að maður næstum ruglast í ríminu. Það er þó sosum engin
hætta á þvf með þessi Ijósaskilti út um allt sem blikka í sífellu: deginum, tímanum,
hitanum veðrinu og svo auðvitað hverju eigi að korta fyrir næst, það breytist aldrei.
Eftir fimm mínútna gang kom ég að skólanum. Rauðir og hvítir litirnir afmörkuðu
þessa miklu byggingu úr umhverfi sínu.
Ég gekk inn í steinlagt anddyrið í suðurálmunni. Svart glampandi blágrýtið var
stífbónað. Plamp nemendanna á inniskónum sínum hljómaði um anddyrið og
blandaðist hvisshljóðinu í gosbrunninum sem var til hægri handar. Rakinn frá
brunninum gerði það að verkuin að loftið varferskt.
27