Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 54
Börkur Hansen
með það fyrir augum að breyta, þróa og bæta. Á íslandi fer mat á skólastarfi fyrst og
fremst fram undir formerkjum lokamats og hefur einkanlega beinst að því að meta
frammistöðu skóla á samræmdum prófum þar sem meðaleinkunnir skóla eru bornar
saman við landsmeðaltal í hveri grein. Mortimore áréttar að samræmd próf séu oftast
þannig úr garði gerð að þau meti frammistöðu nemenda við lok náms og meti því ekki
framfarir þeirra. Rannsóknir sýni að starfshættir í skólum hafi mikið að segja um
framfarir nemenda í námi, en slík nálgun sé miklu réttmætari mælikvarði á
frammistöðu skóla.44
í skóla, þar sem eru mjög slakir nemendur sem standa sig ekki vel á samræmdum
prófum, þarf skólastarfið alls ekki að vera dæmi um slæleg vinnubrögð. Mun
réttmætara væri að meta nemendur í hverjum grunnskóla þegar þeir hefja nám og þegar
þeir Ijúka námi. Þannig er hægt að meta framfarir nemenda eða „virðisaukann" af
skólastarfinu og gefa mun áreiðanlegri umsagnir um afrakstur eða frammistöðu hvers
skóla. Notkun á samræmdum prófum til að meta frammistöðu skóla, eins og þau hafa
tíðkast hérlendis, er samkvæmt þessu ákaflega óréttmætur mælikvarði. Til að sinna
þessu nauðsynlega eftirlitshlutverki með umfangsmeiri og réttmætari hætti en nú
gerist, þarf að styrkja og efla menntamálaráðuneytið eða fræðsluskrifstofurnar verulega
frá því sem nú er.
Eftirlit sem þetta gæti jafnframt virkað sem hvati til að gera skólastarfið markvisst
og skilvirkt öll skólaárin, ekki bara á lokasprettinum rétt fyrir og eftir páska í 10.
bekk. Ekki er heldur óvarlegt að áætla að markviss kerfisbundin fagleg sjálfsrýni hjá
einstökum kennurum eða skólum í heild fylgdi í kjölfarið til að festa hönd á og meta
það sem vel er gert og leiðbeina um það sem betur má fara.
Formlegt kerfisbundið leiðsagnarmat er enn síður stundað í grunnskólunum, nema
þá helst í þeim skólum sem tekið hafa þátt í starfsleikninámi á vegum Kennaraháskóla
Islands. Þau nýbreytni- og þróunarverkefni, sem unnið hefur verið að, eru aftur á móti
oft tilkomin og framkvæmd af einstökum kennurum. Nýbreytni- og þróunarverkefni að
undirlagi yfirvalda menntamála hafa einnig jafnan beinst að sértækum þáttum í
skólastarfinu og oft heyrist að nú sé verið að „gera átak“ í hinu eða þessu í skólum
landsins. Sé athugasemd Fullans tekin til greina ná breytingar sem þessar vart að festast
í sessi og verða hluti af stofnanamenningu hvers skóla og skólastarfinu í heild.45 Ekki
er heldur algengt að metið sé á formlegan og réttmætan hátt hvernig til hefur tekist um
nýbreytni- og þróunarverkefni. Það er því lítið vitað um áhrif margra góðra hugmynda í
skólum landsins og stór spurning hvort þetta eða hitt „átakið“ hafi skilað tilætluðum
árangri. Markvisst mat og eftirlit af hálfu menntamálaráðuneytis og fræðsluskrifstofa,
sem byggði á því að meta framfarir frekar en lokaafrakstur, gæti verið einkar hlutlægt
viðmið til að meta áhrif nýbreytni- eða þróunarverkefna.
Mat á kennurum og mat á skólastarfi í heild eru dæmi um leiðir þar sem kennarar í
skólunum framkvæma matið með það fyrir augum að endurskoða starfið og styrkja það
sem vel er gert. Kosturinn við mat af þessu tagi er að breytingar eða nýjar hugmyndir
eru líklegar til að festast í sessi og innviðir skóla sem stofnana verða sterkari.
Endurskoðun hinna ýmsu þátta skólastarfsins og miðlun upplýsinga um gæði þess til
44 Mortimore 1992:27.
45 Fullan 1991.
52