Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Side 82
Gretar Marinósson og Kolbrún Gunnarsdóttir
hælin. Sömu sögu má segja af orðum eins og vistmaður, skjólstæðingur, vistheimili
og meðferð. Allt eru þetta samkvæmt orðabókarskilgreiningum tiltölulega hlutlaus orð
með almenna merkingu en hafa öðlast tilfinningalega merkingu sem tengist
vandamálum. Þar með litast orðin af almennu viðhorfi til þess sem um er rætt og
verða, í þessu tilviki, félagslegri gengisfellingu að bráð. Fær orðið sambýli brátt sömu
merkingu í hugum okkar og orðið hæli?
Þannig speglar málið hugsun okkar og auðveldar okkur jafnframt að koma reiðu á
hana. Flokkun er vitræn aðgerð sem við lærum snemma á ævinni og er undirstaða
skilnings okkar á umheiminum. Hún er tilraun til að koma skynsamlegri skipan á
flókin mál. Flokkun á sjúkdómum, sérþörfum, fötlunum og fólki þjónar sama
tilgangi. Hún er ekki kenning í sjálfu sér en speglar hugmyndir okkar um hvað greini
fyrirbæri hvert frá öðru og hvað sameini þau svo að betur megi við þau ráða. Beita má
flokkun, sem öðrum vitrænum aðgerðum, jafnt til góðs sem ills. Flokkun getur átt
rétt á sér þegar hugsa þarf fyrir sérstökum þörfum einstaklinga í þeim tilgangi að þeir
fái þá aðstoð sem þeir þurfa til að geta notið gæða og gagna þjóðfélagsins við
sambærilegar aðstæður og aðrir, en hún getur einnig leitt til brennimerkingar
einstaklinga og hópa. Sérkennslureglugerðin frá 1990 mælir svo fyrir að sérþarfir hvers
nemanda skuli metnar með tilliti til þeirra breytinga sem gera þarf í námi hansl() og er
það ólíkt þeim reglum sem áður giltu og byggðu á því í hvaða flokk erfiðleika barnið
sjálft var sett. Engu að síður er ennþá talað um fjölfötlun, vangefni, félags- og
tilfinningaerfiðleika o.s.frv. Þetta er ekki endilega andstætt hugmyndafræði samskólans
en felur engu að síður í sér hættu á stimplun einstaklinga sem frávika.
4.1.3 Viðhorftil skóla fyrir alla
Ekki eru allir jafn sannfærðir um ágæti þeirrar stefnu að öll börn gangi í sinn
heimaskóla. Sumir telja að það sé betra fyrir fatlaða að vera saman utan hins almenna
kerfis; þannig tengist þeir betur jafnöldrum, öðlist sjálfsmynd sem fatlaðir
einstaklingar, séu lausir við óhæfilegar kröfur, kennslu og þjálfun og nái að þróa eigin
menningu. Líta má svo á að þetta viðhorf sé í góðu samræmi við það
grundvallarsjónarmið að skóli skuli laga sig að eðli nemenda sinna, sjónarmið sem
meðal annars kemur fram í markmiðsgrein grunnskólalaga okkar11. En menn greinir á
um hvort það sé rétt túlkun á „eðli og þörfum“ vangefinna eða heyrnarlausra barna, svo
að dæmi séu tekin, að kenna þeim með eðlilegum börnum í almennum bekk í
grunnskóla. í skólastarfi er nærtækt að taka dæmi af kenningum Rudolfs Steiner, sem
Waldorf-skólarnir byggja á og undirstrika virðingu fyrir séreðli vangefinna. Kenningar,
um að táknmál heyrnarlausra sé undirstaða þess að heyrnarlausir læri að hugsa og
umgangast annað fólk, færa á sama hátt rök fyrir nauðsyn sérstaks samfélags
heymarlausra.
Forvígismenn blöndunar og skóla fyrir alla telja á hinn bóginn að með því að
umgangast ófötluð börn fái fötluðu börnin eðlilega fyrirmynd um hegðun sem sé mun
mikilsverðara en sú sérhæfða þjálfun og kennsla sem kann að standa þeim til boða í
*(l Reglugerð um sérkennslu 1990.
* ( Lög um grunnskóla 1991, 2.gr.
80