Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 84
Gretar Marinósson og Kolbrún Gunnarsdóttir
fyrir lok framhaldsskóla þegar aðrir hafa náð þroska fullvaxta einstaklinga. Þótt
einungis sé miðað við skyldunámsaldur er munur á einstaklingum gífurlegur að þessu
leyti. Auk þess eru börn að sjálfsögðu jafnólík í skapgerð og annað fólk.
Hér á því við að spyrja hvað almennir grunnskólar geri ráð fyrir mikilli breidd í
nemendasamfélaginu? Þótt einungis sé litið á byggingar og húsbúnað er Ijóst að fæstir
skólar eru hannaðir með fjölbreytni í huga, hvað þá fatlaða nemendur. Kennsluhættir
miða auk þess fyrst og fremst við bóknám einstaklinga án mikils breytileika.
Persónuleg aðstaða nemenda í skólanum takmarkast af einu borði og einum stól og
þeim hluta útileiksvæðis sem nemandanum tekst að helga sér í frímínútum. Víðast
hvar eiga nemendur þess ekki kost að geyma nein gögn í skólanum vegna þess að
skólastofur eru tvísetnar og engar hirslur þeim ætlaðar. Stundatafla er ennþá ósamfelld
í mörgum skólum og það kostar fleiri en eina ferð í og úr skóla dag hvern. Sú athygli
og aðstoð sem nemendur fá í kennslu er að verulegu leyti háð því hversu duglegir þeir
eru að krefjast hennar. Sérkennsla bætir að vísu um fyrir suma en hún er víða greind
frá bekkjarstarfi og því oft litið svo á að fatlaðir nemendur skuli vera út af fyrir sig.
Wolfgang Edelstein dregur meðal annars þær ályktanir af þroskarannsókn sinni14 að
oft sé góðum nemendum misboðið með of litlum kröfum í grunnskólanum, þeir missi
áhuga og hætti, eða þeim fari aftur. Stundum séu kröfur of miklar þar sem nemendum
er kennt í stórum hópum þótt þeir kunni ekki að fara eftir almennum, munnlegum
fyrirmælum. Einkum eigi þetta við um þá sem standa höllum fæti fyrir. Oft séu
tilboðin röng, t.d. áhersla á of þröngt svið, einkum hið bóklega, og aðstoð skólans við
þá slökustu sé ófullnægjandi15.
Því er sú mynd sem blasir við fötluðum einstaklingi, sem hefur skólagöngu í
almennum grunnskóla í dag, því miður ekki aðlaðandi. Auk þess verður ekki hjá því
komist að viðurkenna að hættan á því að fatlaður nemandi einangrist eða verði fyrir
aðkasti skólasystkina er veruleg nema sérstaklega sé um hnútana búið til að
fyrirbyggja slíkt. Þetta undirstrikar þá staðreynd að í skólastarfi ráða félagsleg
samskipti mestu um hvernig til tekst. Það segir okkur jafnframt að ekki er sjálfgefið
að almenni grunnskólinn, eins og hann er í dag, sé besti staðurinn fyrir alla nemendur.
4.2.2 Aðstœður kennara
í öllum skólum þarf ólík þekking starfsfólksins að njóta sín í samvinnu ef vel á að
vera. í skóla fyrir alla er samvinna lykilhugtak. Án hennar er erfitt að sinna sérþörfum
nemenda. Samkvæmt núgildandi kjarasamningum skipuleggur kennarinn meginhluta
starfstíma síns sjálfur en skólastjóri, faglegur yfirmaður hans, hefur einungis rétt til að
ráðstafa örfáum stundum af starfstíma kennarans til samráðs við aðra. Enda þótt það sé
að sjálfsögðu þægilegt fyrir kennarann að geta farið úr skólanum strax að lokinni
kennslu gefur þetta fyrirkomulag takmarkað svigrúm til eðlilegs samráðs eða
samábyrgðar á fötluðum nemendum, hvað þá til þróunar- og nýbreytnistarfs.
Á undanförnum árum hafa margir kennarar unnið langan dag, oft sinnt meira en
fullu starfi. Því hefur oft verið lítil orka eftir til þess að hefjast handa um ný verkefni
Wolfgang Edelstein 1989.
Wolfgang Edelstein 1991.
82