Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 100
Guðný Guðbjörnsdóttir
Síðan mun ég snúa mér að afmörkuðum þætti rannsóknarinnar og ræða sérstaklega
eftirfarandi spurningar varðandi markmið, námskrár og greiningu námsefnis frá
sjónarhóli kvennafræða: Hvað einkennir kvennafræðilega orðræðu og gagnrýni varðandi
markmið menntunar? Höfum við skýr markmið varðandi menntun og kynferði?
Hvernig eru þau útfærð í námskrám grunn- og framhaldsskólans? Hvaða leiðir hafa
verið farnar til að greina kennslubækur frá sjónarhorni kvennafræða? Hvernig koma
þrjár nýlegar kennslubækur í sagnfræði út úr greiningu af þessu tagi? Hvernig er
mögulegt að koma afrakstri kvennarannsókna inn í kennslubækur og hvers vegna er
það mikilvægt? Að hverju er stefnt í ljósi mismunandi fræðilegra sjónarmiða og hver
verður þróunin í framtíðinni? Að lokum ræði ég niðurstöðurnar í Ijósi þess lagalega
ramma sem íslenskt skólastarf mótast af og kvennafræðilegrar umræðu um menntun og
kynferði.
Grunnhugtök og viðfangsefni rannsóknar
Rannsóknir á menntun og hæfileikum kynjanna hafa leitt í Ijós ákveðna þverstæðu: Þó
að menntun kvenna hafi tekið heljarstökk á þessari öld og þó að ekki hafi fundist neinn
hæfileikamunur á kynjunum svo teljandi sé* 4 breytist valdastaða og launamunur
kynjanna mjög hægt. Þó að ljóst sé að fleira en menntunin skipti máli varðandi laun
og jafnrétti kynjanna þykir ástæða til að athuga hvort sú formlega menntun sem í boði
er samræmist gildandi jafnréttislögum eða ekki.
í rannsóknum mínum hef ég annars vegar stuðst við kvennafræðilega gagnrýni á
viðteknar menntahugmyndir5 og hinsvegar við kenningar í kvennafræðum almennt.6
Umræðan á þessu sviði er stöðugt að þróast og eðli spurninganna að breytast. Atriði
sem voru brennandi fyrir 10 árum, eru meira í bakgrunninum nú og aðrar spurningar
orðnar fræðilega meira spennandi.
Kvennafræðilegar rannsóknir eru unnar frá sjónarhorni kvenna og oft varða þær
konur eða kynferði á einhvern hátt en geta þó snúist um hvaða viðfangsefni sem er.
Markmið þeirra er hið sama og annarra vísindarannsókna: að höndla sannleikann eða
lýsa, túlka eða skýra ákveðin viðfangsefni. Sameiginlegur tilgangur flestra, sem stunda
kvennarannsóknir, er að gera konur og þeirra sjónarmið sýnilegri og meira gildandi í
vísindalegri umræðu, í þeirri von að það auki skilning á því sem kemur í veg fyrir
jafna stöðu kynjanna: Hvernig geta þessar rannsóknir, sem virðast tengdar pólitískum
hagsmunum kvenna, stuðlað að réttlátari umfjöllun og jafnvel aukið hlutlægni
vísindarannsókna? Er þarna um þverstæðu að ræða?
Samkvæmt Harding7 má þekkingarfræðilega greina tvær vel þróaðar lausnir og eina
í burðarliðnum til þess að nálgast „þverstæðuna" sem ýjað var að. Þessi sjónarmið
endurspegla þekkingarfræðilega strauma í vísindaheimspeki undanfarna áratugi.8
^ Sjá t.d. Maccoby og Jacklyn 1974 og umfjöllun mína um þetta atriði í Jöfn staða
kynja í skólum, 1990, bls. 19.
^ Sjá t.d. Martin 1985; Howe 1984 og Schuster og Van Dyne 1985.
^ Sjá t.d. Harding 1986; Flax 1987 og Hawkesworth 1989.
7 Harding 1986:24-29.
8 Sbr. t.d. Kuhn 1962, sem hefur haft mjög mikil áhrif.
98