Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 125
Gyða Jóhannsdóttir
Hér hafa verið nefnd einstök „átök“ í varðveislu tungu og menningar. Þau eru góðra
gjalda verð. Hitt er þó meira um vert að hyggja að undirstöðunum sjálfum en þar gegna
foreldrar, fóstrur og kennarar lykilhlutverki. Hér skal lítilega vikið að hlutverki
fóstrunnar.
Fyrst skal þá nefna beina móðurmálskennslu eða máluppeldi: Fóstra er mikilvæg
málfarsleg fyrirmynd barnanna. Hún þarf því að vanda málfar sitt, tala skýrt og ná til
hópsins, svo og einstakra barna. Ennfremur þjálfar hún börnin, gefur þeim tækifæri til
að segja frá reynslu sinni þannig að önnur börn skilji þau. Þessu hlutverki getur fóstran
því aðeins sinnt að hún kunni góð skil á máltöku barna, málþroska og málörvun; hún
hefur umsjón með mörgum börnum sem eru sem óðast að mynda sér hugtök og mál;
hún á að koma þessum börnum til þroska; hennar ábyrgð er mikil.
Það er óaðskiljanlegur hluti af móðurmálskennslu að miðla börnum þjóðlegum
menningararfi. Olíkt því sem margir halda eru börn á leikskólaaldri fljót að læra texta
og hafa gaman af að syngja. Mikilvægt er að kenna þeim söngva og byggja á
sönggleði þeirra. Það örvar vitþroska þeirra og fagurskyn. M.a. er kjörið að kenna þeim
þjóðlög, þjóðvísur, þulur o.fl. Þessum þætti hefur eftir föngum verið sinnt í
fóstrumenntuninni og fóstrur hafa fjallað um lífshætti fólks áður fyrr. Þær hafa byggt
þessa fræðslu á fróðleiksfýsn barnanna og sköpunargleði þeirra. Ekki hefur verið um
utanbókarlærdóm að ræða heldur hafa þær tengt þennan þátt reynslu barnanna, t.d. hvatt
börnin til að biðja afa og ömmu að segja frá hvernig hafi verið þegar þau voru lítil og
farið hefur verið í heimsóknir á Þjóðminjasafnið og byggðasöfn. í leikskólanum er
unnið úr þessari reynslu í leik og starfi, þvegið á þvottabretti og leikið sér að legg og
skel, svo eitthvað sé nefnt.
Á sama hátt eru börnum kynntar þjóðsögur og ævintýri. Áður fyrr námu börnin
þjóðlegan fróðleik af eldri kynslóðum en þeim börnum fer sennilega fækkandi, samfara
breyttuni fjölskylduháttum og aukinni atvinnuþátttöku eldri kynslóðarinnar. Því er
mikilvægt að fóstrur og kennarar sjái um þennan þátt í samræmi við þroska barnanna.
Þjóðlegur fróðleikur þarf að skipa veglegan sess í starfmenntun fóstra svo og
umfjöllun um hvað er við hæfi að kynna leikskólabörnum.
Leikskóli fyrir öll börn
Á flestum Norðurlöndum hafa yfirvöld sett sér það markmið að stefnt skuli að því að
öll börn eigi þess kost að vera í leikskóla frá ákveðnum aldri. Island hefur gengið hvað
lengst á þessu sviði með samþykkt laga um leikskóla nr. 48/1991. Leikskóli er,
samkvæmt þessum lögum, fyrir börn frá þeim tíma er fæðingarorlofi lýkur, til sex ára
aldurs. í 3. gr. laganna er kveðið á um
að stofnun leikskóla og rekstur [sé] á ábyrgð sveitarfélaga en fagleg yfirstjórn
málaflokksins samkvæmt lögum þessum er á hendi menntamálaráðuneytis.
Sveitarfélag gerir árlega könnun á því hversu margir foreldrar óska eftir
leikskólavistun. Á grundvelli þeirrar könnunar verði gerð áætlun um uppbyggingu
leikskóla í viðkomandi sveitarfélagi til a.m.k. tveggja ára í senn. Sveitarfélögum er
samkvæmt lögum þessum skylt að hafa forystu um að tryggja börnum þann lögvarða
lágmarksréttt til þjónustu sem lög þessi gera ráð fyrir. Til þess að setja á stofn
leikskóla þarf starfsleyfi frá menntamálaráðuneytinu. Heimilt er að veita leikskóla
starfsleyfi þótt börnin dvelji þar ekki daglega eða einungis hluta tlr ári.
123