Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 126
Gyða Jóhannsdóttir
1 lögunum er ákvæði til bráðabirgða þar sem segir að stefnt skuli að því að sveitarfélög
nái þessum markmiðum innan tíu ára.
Með þesum lögum var stigið mikilvægt skref í þá átt að gera leikskólanum jafnhátt
undir höfði og grunnskólanum og felst í þessu mikil viðurkenning á starfi fóstra með
yngstu börnunum. Framkvæmd laganna hlýtur hins vegar að leiða af sér mikla fjölgun
leikskólarýma þar sem nú vantar mikið á að séð sé fyrir þörfum allra barna á
leikskólaaldri. Þessari fjölgun fylgir sú hætta að magnið verði á kostnað starfsgœða.
Á öllum Norðurlöndum er mikill fóstruskortur. Árið 1990 voru aðeins u.þ.b. 37%
starfa, sem ætluð voru fóstrum, mönnuð fóstrum, að auki voru 6% starfsfólks með
aðra uppeldisfræðilega menntun. Yfirvöld allra landanna viðurkenna þennan skort og
reyna að auka aðsókn í fóstrunám með ýmsum hætti. Boðið er upp á mismunandi
námsbrautir, t.d. kvöldskóla. fjarnám eða að verðandi fóstrur geti lokið námi á lengri
tíma en þrem árum.
Þetta er hins vegar ekki nægilegt. Launakjör fóstra hafa hingað til ekki verið í neinu
samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Ur því verður að bæta. Annars er
hætt við því að aukið framboð leikskólarýmis leiði til þess að slakað verði á
menntunarkröfum til starfsfólks. Hlutfall ófaglærðs starfsfólks mundi aukast. Þar með
er slakað á kröfum um fagleg vinnubrögð. Boðið verður upp á leikskóla sem ekki
stendur undir nafni. Hvernig á t.d. að sinna fötluðum og ófötluðum börnum samtímis
án þess að kunna til verka? Það sama gildir um miðlun íslensks menningararfs svo og
alla aðra þætti leikskólastarfs sem ekki hafa verið gerð skil hér. Smám saman væri
ekki lengur hægt að rækja menntunarhlutverk leikskólans. Börn ættu ekki lengur kost
á þeim þroska- og námstækifærum sem þau eiga nú. Sú faglega starfsviðurkenning,
sem fóstrur hafa smám saman öðlast, hyrfi.
Samfara fjölgun leikskóla þarf því að gæta þess vandlega að faglegar kröfur og
launakjör haldist í hendur. Það er hægt ef yfirvöld og almenningur gera sér grein fyrir
mikilvægi leikskólans og gefa honum forgang.
Heimildir
Baldur Kristjánsson. 1990. Börn í borg og bæ. Tímarit Háskóla íslands 5,1:41-55.
Insats för barn med behov för særskilt stötte i barnehagen i de nordiske
lande. Viborg, NORD, 1989.
Kvinnor och man i Norden. Fakta om jamstalldheten. Kfíbenhavn, Nordic Council of
Ministers, 1988.
Lög um leikskóla nr 48/1991.
Stefán Olafsson. 1990. Lífskjör og lífshættir á Norðurlöndum. Reykjavík, Iðunn.
Uppeldisáœtlun fyrir dagvistarheimili; Markmiö og leiðir. Reykjavík, mennta-
málaráðuneytið, 1985.
Vinnumarkaðskönnun Hagstofu íslands. Hagtíðindi íslands, júní 1991. Reykjavík,
Hagstofa íslands, 1991.
124