Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Blaðsíða 133
Helgi Skúli Kjartansson
Sr. Jón Steingrímsson er þannig dæmi um þá skólapilta, sjálfsagt allmarga, sem
tókst að samþýða sig latínunáminu og fá út úr því menntun, sem var naumast mjög
hagnýt, en þó góðra gjalda verð. Skólastyrkurinn gerði mörgum fátækum pilti kleift
að njóta námsgáfna sinna og öðlast rétt til embætta. Öðrum, sem latínan lá ekki jafn
vel fyrir, varð hún óyfirstíganlegur þröskuldur, þótt þeir hefðu að öðru leyti verið vel
til frama fallnir. Hið kröfuharða latínunám hafði þó a.m.k. það til síns ágætis að auður
og ætterni réðu ekki öllu um framavonir embættismanna.
Tryggð við dauðar tungur
Þrátt fyrir þá miklu - og raunar vaxandi - rækt sem lögð var við latínuna í skólum
Vesturlanda, þá minnkaði jafnt og þétt raunveruleg notkun hennar. í stjórnsýslu var
löngu hætt að rita skjöl á latínu, og í samskiptum ríkja var farið að nota nútímamál.
Vísindamenn fóru smám saman að semja rit sín á þjóðtungunum fremur en latínu, og
til að gera þau aðgengileg öðrum þjóðum voru notaðar þýðingar á mál stórþjóðanna:
frönsku, þýsku, ensku. Enn síður kom mönnum í hug að semja eða þýða fagur-
bókmenntir á latínu. Hún var mál fornritanna og kaþólsku kirkjunnar, en varla mikið
meira.
A tímum upplýsingar, skynsemishyggju og andófs - jafnvel byltinga - gegn
gömlum hefðum, hefði mátt vænta nokkurs undanhalds latínunnar sem skólafags. En
vinir hennar sneru lljótt vörn í sókn. Um 1800 og fram eftir 19. öld aðhylltust leiðandi
menntamenn svokallaðan ný-húmanisma. í þeirra augum var latínunámið leið til
almennrar menntunar. Þó að verðandi menntamenn þyrftu kannski lítið að nota latínu í
lífinu, þá áttu þeir að læra hana til þess að tileinka sér arfleifð hinnar rómversku
fornaldar, skáldlist hennar og stjórnlist, heimspeki og hugsjónir. Textalestur varð
markmið latínunámsins, málfræðin fremur leið að markinu. Þó var glíman við málið
sjálft líka talin hin þroskavænlegasta þolraun, einkum vegna þess hve flókið það er að
formi og fjarlægt nútímamálunum.17
Gagnrýnendur ný-húmanismans boðuðu gagnfrœðastefnu, þ.e. að kenna hagnýtari
greinar í stað fornmálanna. Þeir vildu kenna erlend mál samtímans - þroskandi
bókmenntir mætti lesa á þeim og ekki síst á móðurmálinu. Þá skyldi kenna þekkingar-
greinar eins og landafræði og náttúrufræði og auka kennslu í stærðfræði og sögu. Á
móti þessu sjónarmiði var ekki aðeins haldið fram yfirburðum fornmálanna sem slíkra,
heldur lfka varað við fjölgun námsgreina; þá væri kröftunum dreift, hvergi kafað djúpt,
og þroskagildi skólanámsins þannig skert.
^ Það er galli á þessum tvöfalda tilgangi latínunnar að honum virðist enn betur þjónað
með annarri námsgrein, nefnilega grísku. Hún er ekki síður formauðugt mál og enn
framandlegra miðað við vestrænu nútímamálin, þannig að þjálfunargildi hennar ætti
að vera þeim mun meira; og fornmenntir Grikkja, bæði skáldrit og heimspeki, eru
stórum frumlegri og sígildari en rit Rómverja. Enda gerðu ný-húmanistar veg
grískunnar mikinn í skólanámi og vildu kenna klassíska grísku fremur en mál Nýja
testamentisins. En samt héldu þeir í latínuna sem aðalnámsgrein. Að því hnigu
eðlileg íhaldsrök og rótgróin hefð (sbr. dönskukennsluna hjá okkur, sem haggast
hvergi þótt reynt sé að rökstyðja að sænska eða norska myndi gegna tilgangi hennar
betur).
131