Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 155
Ingólfur A. Jóhannesson
umræðum og skjölum en áhersla á lýðræðislegt skólastarf eða tilfinningalega nálgun
viðfangsefna.33
Sti uppeldisfræði sem kenna má við virkni höfðar til mjög margra. Eitt af því sem
virkni-uppeldisfræði34 byggist á er að skólabörn geri tilraunir í raungreinum og séu
virk við þá iðju. Þannig höfðar virkni-uppeldisfræði til þeirra sem álíta að meiri raun-
greinakennsla sé þjóðum nauðsynleg til að standa sig í samkeppni við aðrar þjóðir í
atvinnumálum. A hinn bóginn byggist virkni-uppeldisfræðin líka á því að börn séu
virk í hugsun og hún stendur föstum fótum í sálfræði Piagets sem svo vinsæl varð
meðal umbótafólks hér á landi. Hún höfðar til þeirra sem telja að það sé hlutverk skóla
að efla lýðræðislega þjóðfélagsskipan. Virkni varð að slagorði með margvíslega
merkingu og virkni-uppeldisfræðin að eins konar samnefnara umbótastefnunnar.
Því fer víðs fjarri að allt umbótafólk sé þrælar tæknihyggju eða trúar á vísindi.
Heimir Pálsson og Svanhildur Kaaber fluttu fyrirlestur, sem þau sömdu ásamt fleirum,
á ráðstefnu um kennaramenntun í apríl 1986. Þau sögðu m.a.:
Hver einasti kennari verður að hafa þá menntun sem þarf til að geta tekið ábyrga
afstöðu til kennsluefnis. Sá efnisþenkjandi heimur sem við lifum í er óábyrgur.
Kennarar geta ekki skotið sér og mega ekki skjóta sér undan þeirri ábyrgð að taka
afstöðu, kenna nemendum sínum greinarmun góðs og ills. Með því er náttúrlega átt
við að geta tekið á álitamálum þessarar tilveru, þessa samfélags. En þetta verður þá að
geta gerst þannig að það sé ekki skoðun kennarans sem verið er að troða upp á
nemendur, heldur hafi kennarinn nægilega menntun til að geta leiðbeint um aðferðir,
ekki niðurstöðu.
Samt sem áður er óábyrgt að taka ekki afstöðu. Hugsum okkur að hér settist að völdum
einræðissinnuð ríkisstjórn, hugsum okkur að við stæðum frammi fyrir kröfunni um
endurskoðun sagnfræðinnar, hugsum okkur að bannað væri að kenna um Jón
Sigurðsson - nú eða bannað að kenna um nokkurn annan en Jón Sigurðsson. Kennara-
stétt sem ekki væri fær um að rísa gegn slíkum valdboðum, hún væri óábyrg og
óalandi. Og segjum ekki: Það gerist aldrei hér! Þvílíkt svar er ábyrgðarlaust.35
Höfundar viðurkenna að siðfræði sé erfitt að kenna og leggja raunar áherslu á að aðferð
sé ferlið við að ræða og taka ákvarðanir um hvað sé verjandi að gera. Þeir leggja
áherslu á að kennaramenntunarstofnanir megi ekki skjóta sér undan þessum verkefnum
þótt þau kunni að vera erfið og undirstrika að kennsla sé ævinlega siðferðilegt
vandamál.
Eg fæ ekki betur séð en höfundar vilji með málflutningi sínum skerpa andstæður
tækniskautsins og lýðræðisskautsins. Það sem gildir sem kapítal á ákveðnum
vettvangi er ekki fastákveðið í eitt skipti fyrir öll, heldur er tekist á um það Ijóst og
leynt og flestir vilja hafa áhrif á þetta kapítal. Fullyrðingar um gildi þessarar eða hinnar
kennsluaðferðarinnar eða námsgreinarinnar þarf að skoða í þessu ljósi. Þannig er andófi
mínu gegn tækni- og vísindahyggju hér að framan, og því sjónarmiði erindishöfunda
33 Sjá nánar IÁJ 1991:163-164.
3 ^ í doktorsritgerðinni notaði ég hugtakið „activity pedagogy" um það sem hér er nefnt
virkni-uppeldisfræði, sjá nánar IÁJ 1991:105-107.
33 Aldís Guðmundsdóttir o.fl. 1986:21. í ÍÁJ 1991:278-279 er vísað til erindisins
undir nöfnum Heimis Pálssonar og Svanhildar Kaaber.