Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 176
Jón Torfi Jónasson
[...] skólinn á að tendra hið andlega Ijós og hið andlega afl og veita alla þá þekkingu
sem gjöra má menn hæfilega til framkvæmdar öllu góðu sem auðið má verða [,..]2 3
Annað atriðið í málflutningi Jóns Sigurðssonar er sú afstaða hans að menntun eigi að
vera fyrir alla en ekki bara fyrir suma og hún skipti ekki minna máli fyrir þá sem
minna mega sín en hina sem styrkari eru.
Þriðja atriðið er sú skoðun hans að það sé hlutverk stjórnvalda að sjá til þess að
hæfileikar allra fái notið sín:
Fyrir þessu verður stjórnin að ala önn að svo verði hagað til að enginn kraftur, ef svo
mætti verða, misstist, sem stoðað gæti til velferðar alls félagsins, heldur að
sérhverjum stæði vegur opinn til að nema það sem honum væri best lagið [...]?
Fjórða atriðið er sú áhersla sem hann leggur á að nemendur séu saman sem lengst þótt
hann telji nauðsynlegt að hafa sérhæfða skóla:
[...] ekki getur einn skóli verið nægur handa öllum; það verða að vera eins
margháttaðir skólar eins og einkennilegir flokkar manna eru í landinu [...] En þó
þessir aðalflokkar verði aðgreindir, er þó að því að gæta, að þeir eiga allir, hver í
sinni röð, að stefna til eins miðs, og það er framför og velferð alls félagsins; menn
verða því vandlega að hyggja að hversu langt þeir eiga leið saman og hvar leiðir
skiljast, því það er aðalregla, af því allir eiga að stefna til eins aðalmiðs, að því
nánara samband sem er á millum allra flokkanna án þess að neinn líði skaða við, þess
betri von er að tilganginum verði framgengt; þetta er því æskilegra, sem bágara er að
deila í æskunni og það stundum langt frameftir, til hvers maður helst er laginn og
leiðir tíðum og einatt ógæfu af því hversu þar verður misráðið um.4
Jóni er það kappsmál að efla starfsmenntun en sér nokkur tormerki á því að stofna
sérstaka starfmenntunarskóla. En þá kemur að fimmta atriðinu sem er hugmynd hans
um að sameina sérskólana latínuskólanum svo fólk gæti farið í þessum sameinaða
skóla þá námsbraut sem best hentaði:
Skólar handa kaupmannaefnum, stýrimannaefnum, og handa öllum þeim sem læra ætla
handiðnir eða aðra borgaraathöfn eru öldungis nauðsynlegir, en á stofnun þeirra eru
meiri vandkvæði en á almúgaskólum [...] eins og stendur. Beinastur vegur er sá, eins
og nú er ástatt, að sameina þennan skóla latínuskólanum og laga svo latínuskólann,
að neðsti bekkur (eða neðstu bekkir) geti verið handa hvorutveggju, og geta menn þá
séð glöggvar en nú, hverjum kennandi er til embætta og ráðið úr fyrir hinum, sem
ekki eru lagaðir til vísinda, heldur til starfa og borgaralegrar athafnar með betra móti,
og til meiri nytsemdar bæði landinu og þeim, en með því að reka þá úr skóla og svipta
þá með því allri menntunar von marga hverja.5
Þessi hugmynd um að sameina bókmenntun latínuskólans og starfsmenntun náði ekki
fram að ganga fyrr en með stofnun fjölbrautaskólanna, rúmum 130 árum eftir að Jón
skrifaði grein sína.
Auk þess að leggja til sérhæfða starfsmenntun gengur Jón Sigurðsson út frá þeim
fimm grundvallaratriðum sem nefnd eru hér að ofan: Menntun er forsenda framfara í
2 Jón Sigurðsson 1842:67.
3 Sama rit, bls. 72.
^ Sama rit, bls. 72-73.
^ Sama rit, bls. 149
174