Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 182
Jón Torfi Jónasson
fyrir stofnun sameinaðs skóla, ef til vill þau veigamestu.28 Meðal annars átti að sjá til
þess að nemendur, sem veldu menntaskólaleiðina en kynnu þar ekki við sig, gætu valið
aðrar brautir og fengið drjúgan hluta fyrra náms síns metinn. Þetta voru einnig þau rök
sem Jón Sigurðsson notaði þegar hann taldi sameiginlegan skóla góðan kost.
Sameinuðum framhaldsskóla er einnig ætlað að leyfa nemendum að fresta ákvörðun
sinni, það er
að gefa nemendum tækifæri til að fresta endanlegu námsbrautarvali og jafna þannig
aðstöðu þeirra til að velja sér námsbraut í sem fyllstu samræmi við þann áhuga og
þá getu, sem vaxandi þroski þeirra kann að leiða í ljós.
Báðar þessar reglur hljóta að ráða miklu um skipulag brautanna. Til þess að ná þessu
markmiði verða þættir námsins að vera sameiginlegir sem lengst og þess vegna
almennir. Það má einnig snúa þessu við og segja að allir almennir námsþættir hljóti að
koma snemma í náminu. Þessar meginreglur verða mjög afdrifaríkar fyrir mótun
framhaldsskólans.
Næst er virðingarstaða námsbrauta. Draumurinn er sá að í sameinuðum framhalds-
skóla náist
að gera námsbrautum jafnhátt undir höfði og draga úr því vanmati og vanrækslu á
tilteknum námsbrautum, sem skipting námsbrauta milli aðskildra skólagerða
virðist jafnan hafa í för með sér.
Með þvf að hafa allar brautirnar innan sama skóla á að tryggja að virðing þeirra verði
ekki eins misjöfn og ef þær væru í ólíkum skólum. Þetta sama sjónarmið eða einhver
svipuð virðast hafa haft mikil áhrif á uppbyggingu háskólastigsins á síðustu árum hér á
landi eða að minnsta kosti á umræðu um það mál. Þannig má sjá ýmislegt fyrir um
þróun háskólastigsins með því að gaumgæfa þróun framhaldsskólans. Sameinaður
framhaldsskóli áeinmitt
að hamla gegn því - með því að vanda sem best til allra námsbrauta - að gáfnafar eitt
ráði vali námsbrautar og tilteknar stéttir og starfsgreinar eigi þannig á hættu að
fara varhluta af þeim skerfi af almennum gáfnaforða þjóðarinnar, sem er réttur
þeirra og nauðsyn.
Með þessu átti að tryggja jafnan rétt (og líklega jafna möguleika) allra starfsgreina til
góðs starfsfólks.29 Þetta er vitanlega mikilvægt en viðkvæmt mál og ræður meðal
annars miklu um kröfur margra starfsgreina um sífellt aukinn undirbúning fyrir
starfsnámið. I þeim felst ákveðin trygging fyrir því að fá að minnsta kosti dugmikið
námsfólk, hvort sem það dugar vel til annarra starfa eða ekki. Síðasta almenna
röksemdin fyrir sameinuðum framhaldsskóla var sú að þar næðust tengsl á milli ólíkra
heima með því
að efla gagnkvæman skilning og virðingu starfsgreina og stétta með því að sjá öllum
nemendum, án tillits til námsbrautar, fyrir sem mestri sameiginlegri reynslu á
námsferli þeirra.
9 8
Þetta er skoðun Jónasar B. Jónssonar sem var fræðslustjóri í Reykjavík þegar þessar
tillögur voru í mótun (munnleg heimild, apríl 1992).
^ Það hefur löngum verið áhyggjuefni að fólk raðaði sér á brautir eftir námsgetu, sbr
athugasemd iðnfræðslulaganefndar (Menntamálaráðuneytið 1975:27).
180