Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Síða 187
Jón Torfi Jónasson
samsvöruðu latínuskólum í lútherskum sið og svipaðrar ættar voru colléges sem voru
fremur í dreifðum byggðum og buðu stundum ekki upp á alla efstu bekkina. Flestir
þessara skóla voru ríkisskólar. Lokaprófið var baccalauréat sem veitti aðgang að
háskólum. Þessu prófi var lokið um 18 ára aldur.
Við þessa skóla var svo á árunum 1863-1865 bætt námsbraut, enseignement
[secondaire] spécial sem var fjögurra ára nám (11-15 ára).44 Því var sérstaklega ætlað að
verða mótvægi við hið klassíska bóklega nám. Victor Duruy, menntamálaráðherra
Napóleons III, kom þessum hugmyndum í framkvæmd. Hann vildi leggja áherslu á
hagnýtar greinar, verklegar æfingar og jafnvel einhverja starfsþjálfun því að hann vildi á
skipulegan hátt taka tillit til „þarfa atvinnulífsins“: Framleiðni þyrfti að auka í helstu
atvinnugreinum þjóðarinnar og menntunin væri ein forsenda meiri afkasta. En tveir
aðrir þræðir fléttuðust þar við. Annars vegar átti að opna leiðir fyrir nemendur úr
stéttum sem ekki voru líklegar til þess að sækjast eftir hinu klassíska bóklega námi og
hins vegar átti að opna leiðir fyrir nemendur sem ekki ættu auðvelt með slíkt nám.45
Upphaflega var námið skipulagt sem fjögurra ára nám, þannig að hvert námsár væri
fullkomlega sjálfstæð eining. Nemendur gætu því hætt án þess að um hálfkarað verk
væri að ræða. Kerfið virðist hafa náð fótfestu fljótt en á 25 árum tók það stöðugum
breytingum í átt að hinu klassíska kerfi og meðal annars var bætt við tveimur árum.
Arið 1891 var nafninu formlega breytt í enseignement moderne.46 Námið var þá orðið
mjög almenns eðlis og áhersla á verkmenntun nánast engin 47 Verknámsbrautin varð að
bóknámsbraut.
Verknámshugmyndin48 er athyglisverður þáttur íslenskrar skólasögu en örlög hennar
urðu efnislega þau sömu og þeirrar frönsku. í lögunum frá 1946 er verknám skilgreint
sem ein útgáfa af almennri menntun en ekki sem eiginlegt starfsnám; menntun sem sé
ekki síður eftirsóknarverður grunnur að frekara námi en bóknámsbrautirnar. Þær
síðarnefndu áttu frekar að vera undanfari áframhaldandi bóknáms, einkum náms í
menntaskóla og síðar háskóla (eins og gagnfræðaskólarnir höfðu raunar verið
skipulagðir fram til þessa), en verknámið átti að vera góður undirbúningur að
margvíslegu starfsnámi. I ljósi sögunnar má sjá að verknámið var vanmáttug tilraun til
þess að brjótast út úr bóknámsfarveginum og gat aldrei í alvöru tengst þeirri starfs-
menntun sem fyrir var. Matthías Jónasson prófessor, sem þekkti vel þýska
starfsmenntunarhefð þar sem bóknámi, verknámi og starfsþjálfun var fléttað saman, sá
glöggt hve veikburða íslenska útgáfan var.49 Hann taldi margvísleg rök hníga að því að
byggja upp öflugt verknám í landinu en það yrði að gerast af fullum heilindum.
Verknámsdeildirnar mættu ekki verða annars flokks bóknámsdeildir heldur mikilvægar
44 Ringer 1987:72.
4^ Sama rit, bls. 73.
4^ Sama rit, bls. 81. Ringer bendir á að nafnið hafi þegar verið notað 1871, sem sýnir að
bóknámsliðið hefur snemma viljað knýja fram breytingar.
4^ Sama rit, bls. 74. Þessi nýja braut var nú orðin mjög svipuð þeirri gömlu, nema dregið
var úr latínu og grísku en nokkuð aukið við náttúruvísindi og franskar bókmenntir.
4^ Greinargerð með frumvarpi til laga um skólakerfi og fræðsluskyldu 1945, sjá athuga-
semd við 4. grein.
4t^ Matthías Jónasson 1949.
185