Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 193
I
Kristinn Björnsson
okkur og aðstandendum farborða. Er því eðlilegt að veljandi spyrji um afkomu-
möguleika. Aðeins þarf að muna að fleira er rétt að hafa í huga.
Vissrar varkárni er líka þörf í sambandi við hið fjárhagslega mat starfsins. Það er
ekki víst að starf sem er vel launað í dag verði það framvegis. Þarf því að gæta að hvort
hér sé um bráðabirgðaástand að ræða. Venjulega má þó treysta því að vandasöm störf,
sem krefjast undirbúnings eða menntunar, verða er stundir líða betur launuð og veita
mest atvinnuöryggi. Þá má og hafa í huga, a.m.k. hér á landi, að launin ein ákvarða
ekki kjör starfsmannsins; hlunnindi og aðstaða er starfi fyigir geta einnig komið til
greina.
Nátengd þessu er sú spurning hvort tilvinnandi sé að leggja á sig langt nám eða
undirbúning vegna væntanlegs starfs. Þessu verður auðvitað hver og einn að svara fyrir
sig en leiðbeinanda ber að gefa sem bestar upplýsingar um nám, kostnað við það,
möguleika að námi loknu og annað er máli skiptir til að auðvelda valið. Sem
leiðbeinandi mundi ég þó efalaust hvetja ungt fólk til að afla sér menntunar ef þess er
kostur og búa sig undir vandasamari störf, frekar en taka fyrstu ígripavinnu sem býðst.
Vert er að íhuga hversu erfitt starf er og hver áhætta fylgir því. Ég held þó að fólk
setji sjaldan fyrir sig áhættu en rétt er samt að veljandi fái upplýsingar um þá áhættu
sem starfi getur fylgt. Svipað gildir um erfiði. Heilbrigt ungt fólk setur það sjaldan
fyrir sig. í vissum tilvikuin er þó vert að íhuga þetta atriði, sérstaklega ef leiðbeint er
þeim sem vanheill er eða fatlaður á einhvern hátt.
Starfsval fatlaðra er oft nokkru vandasamara en annarra, ekki síst þegar um er að
ræða ungt fólk sem er tiltölulega lítið fatlað. Þetta er svo vegna þess að maðurinn
finnur minna fyrir því þótt starf sé erfitt meðan liann er ungur og upp á sitt besta.
Fatlaðir geta því oft leyst af hendi störf sem þeim henta ekki er þeir reskjast. Ég hef séð
margan manninn vinna við erfiðisvinnu, fiskveiðar, byggingarvinnu eða annað ámóta
þrátt fyrir fötlun. En svo kemur í ljós að hann þolir þetta starf ekki lengur þegar hann
er um fertugt eða fimmtugt. Það er alltaf skynsamlegt að velja í upphafi starf sem líkur
eru til að maðurinn geti unnið út starfsævi sína, starf sem er þannig að fötlunin skiptir
við það litlu máli. Miklu óþægilegra er að þurfa að breyta til á miðjum starfsaldri
vegna þess að rangt var valið í upphafi.
Eitt hið hörmulegasta, sem fatlaða getur hent, er þó að verja nokkrum árum í nám
undir starf sem hentar ekki að námi loknu. Unglingar gæta þess ekki alltaf að taka tillit
til fötlunar eða vanheilsu og þurfa því leiðbeiningar svo að þeir velji ekki nám sem
hentar ekki eða starf sem þeir geta ekki rækt til frambúðar.
í hugum flestra er það ekki lítið atriði hvers álits starfið nýtur, hvort litið er upp til
þeirra sem starfið rækja. Við þetta er einkum að athuga að slíkt álit getur tekið
breytingum er árin líða og því ekki vert að leggja allt of mikið upp úr því. Fyrr á
tímum nutu t.d. störf háskólamenntaðra manna mikils álits. Nú njóta þess tæknileg
störf. f stórum dráttum fer þó saman álit starfsins og laun eða kjör sem það býður, og
því er vert að skoða þessi atriði saman þegar reynt er að skera úr um það hvert tillit
skuli tekið til þeirra við valið.
Hér verður ekki frekar fjallað um ytri skilyrði starfsins en horfið að því að líta á
hinn meginþáttinn, eiginleika veljandans.
191