Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 195
V
Kristinn Björnsson
erfiðara. Auðveldara vegna þess að hinn tjölhæfi getur valið mjög ólík störf með jafn-
góðum árangri. Honum heppnast nær því hvaða starf sem hann tekur sér fyrir hendur.
Hann getur því oft valið af nokkru handahófi með góðum árangri.
Erfiðara getur þó val hins fjölhæfa verið vegna þeirrar kunnu staðreyndar að sá sem
á völina á líka kvölina. Honum getur gengið illa að ákveða sig og einbeita sér að
nægilega fáum viðfangsefnum vegna þess hve margt hann á um að velja. Þegar svo
stendur á er það ekki hæfileikakönnun ein sem orðið getur að liði heldur viðræður við
leiðbeinanda eða sálfræðing sem að því miða að hjálpa veljanda til að fá yfirsýn, þekkja
eigin óskir eða áhugasvið og greina aðalatriði frá aukaatriðum meðal þeirra mörgu
atriða er áhrif hafa á valið.
Hér er þá komið að mikilvægi áhugasviðsins en það skiptir að sjálfsögðu miklu
máli fyrir alla líðan manns við starf að hann hafi áhuga á því, það sé honum hugleikið
og annað meira en kvöð sem inna verður af hendi vissan stundafjölda á viku hverri.
Hægt er að greina rnilli þess sem kalla mætti beinan áhuga og óbeinan. Beinn
áhugi er löngun til að fást við verkefni vegna þess að manni geðjast að því, er það
hugleikið eða nýtur þess meðan unnið er. Óbeinn áhugi er það að vilja vinna starf
vegna launa eða gæða sem því fylgja, svo sem álits sem starfið nýtur, mikils frítíma,
hlunninda o.s.frv.
Við starfsval verður spurningin um áhugamál oft nokkuð torleyst og það af ýmsum
ástæðum. Áhuga er ekki hægt að mæla á eins öruggan og einfaldan hátt og hæfileika.
Erfitt getur verið að greina milli hins beina og óbeina áhuga. Loks er áhugi að miklu
leyti áunninn og meiri breytingum háður en hæfileikar.
Áhugi vaknar tíðum og eflist við það að vinna að ákveðnu verkefni. Það er svo að
flestum hlutum þarf að kynnast nokkuð til að fá áhuga á þeim og það sem menn
fyrirfram halda að sé skemmtilegt og girnilegt reynist ekki alltaf svo við nánari kynni.
Besta leiðin til að lækna áhugaleysi á einhverju viðfangsefni eða starfi getur því verið
að neyða sig til að fást við það og leggja sig fram við það um hríð. Við æfingu verður
þá verkið tamt og auðveldara og hinar skemmtilegri hliðar þess koma þá fyrst í ljós
þegar farið er að fást við það.
Beinn áhugi á einhverju starfi er því sjaldan til staðar fyrirfram hjá unglingum, til
þess vantar þá reynslugrundvöll. Unglingur hefur ekki haft tíma eða tækifæri til að
þroska áhugaefni svo nokkru nemi. Þegar hann telur sig hafa áhuga á vissu starfi er
áhuginn því oftast óbeinn frekar en beinn, byggður á hugmyndum um þá kosti er
starfinu fylgja. Við könnun áhugamála er því einkum reynt að kanna grundvallarþætti
áhuga og hugðarefna eða tegundir starfa sem áhuga gætu vakið. Það má t.d. kanna hvort
maðurinn er hneigður fyrir viðfangsefni sem krefjast hreyfingar frekar en kyrrsetu,
nákvæmni og yfirlegu frekar en flýtis, hvort hann tekur útivist fram yfir inniveru
o.s.frv. Slík könnun á eðli þeirra viðfangsefna, sem manni eru hugleikin, getur komið
í veg fyrir að maðurinn velji sér starfssvið sem er í algeru ósamræmi við það sem hann
getur fengið áhuga á.
Um skapgerð manna og starfsval mætti margt segja. Hér mætum við torræðustu
vandamálunum þegar um er að ræða að taka tillit til sálrænnar gerðar manna við valið.
Veldur því fyrst og fremst að skapgerðareiginleikar eru ekki mælanlegir á jafn
auðveldan hátt og hæfileikar og eðli þeirra eða þættir ekki eins vel aðgreindir og
193