Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 225
Uppeldi og menntun 1 (1): 223-231
S
Olafur Proppé
Kennarafrœði, fagmennska og
skólastarf'
Inngangur
Meginspurningin sem ég geri tilraun til að svara í þessari stuttu grein er hvernig megi
ná sem mestum og bestum árangri við uppeldi og menntun í formlegum uppeldis- og
menntastofnunum, einkum í grunnskólum landsins. í skólunum starfa einstaklingar og
hópar fólks sem hafa undirbúið sig sérstaklega og tekið að sér þetta erfiða starf, þ.e. að
koma öllum þeim nemendum sem þangað leita „til nokkurs þroska“. Ég fjalla um
tengsl menntunar og skólastarfs, aukið mikilvægi formlegra uppeldis- og
menntastofnana í nútíma samfélagi og hvort og hvernig sé unnt að samhæfa stjórnun,
fagleg vinnubrögð og faglega ábyrgð í svo flóknu kerfi sem skólastarf í landinu er. Ég
bendi á að vaxandi kröfur eru gerðar til kennara og að sífellt aukist þörfin fyrir
kennarafræði, ekki aðeins í formlegri kennaramenntun heldur einnig í daglegu starfi
skólanna. Að lokum set ég upp líkan sem ætlað er að sýna í hverju grundvallaratriði
faglegra vinnubragða eru almennt fólgin; líkan sem unnt er að styðjast við til þess að
auka árangur af uppeldis- og menntunarstarfi í íslenskum skólum. Jafnframt vara ég
við tæknilegum „lausnum" á sviði uppeldis og menntunar sem ekki styðja við fagleg
vinnubrögð kennara og jafnvel hindra þá í að bera faglega ábyrgð á skólastarfinu.
Menntun og skólastarf
Menntun er í hugum margra nátengd skólastarfi. Við getum þó spurt: Leiðir skólastarf
alltaf til menntunar? Verða menn að taka þátt í skólastarfi til þess að menntast? Svarið
við báðum spurningunum er „Nei“. Menntun leiðir ekki alltaf af skólastarfi og menn
geta vissulega öðlast menntun án þess að taka þátt í skólastarfi. En við gætum líka
spurt: Getur menntun og skólastarf farið saman, og ef svo er hvað þarf til þess að svo
megi verða? Slík spurning er mun opnari og líklegri til að leiða af sér aðrar spurningar
og þar með betur til þess fallin að hjálpa okkur við að skilja tengsl skólastarfs og
menntunar.
Menntun, samfélag og menning eru órjúfanlega tengd. Reyndar eru orðin menntun,
menning, menn, mennska og mennskur öll af sömu rót. Menning höfðar til þess sem
einkennir mannlegt samfélag, þ.e. þess sem við gerum í samfélagi við aðra menn (ég
* Greinin er að nokkru leyti byggð á erindi um kennaramenntun sem ég flutti á
Uppeldismálaþingi Kennarasambands íslands í Reykjavfk og á Egilstöðum haustið
1990, og á grein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu 11. september 1991, undir
fyrirsögninni „Kennaramenntun: Hvað er nú það?“. Einnig hef ég stuðst við erindi
sem ég flutti við Deakin University í Ástralíu í mars 1991 undir heitinu: „How can we
increase professional work in education?11
223