Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 244
Uppeldi og menntun 1 (1): 242-257
Ragnhildur Bjarnadóttir
Spegill, spegill, herm þú mér...
Narcissisma-umrœðan og íslenskir unglingar
Inngangur
Fyrir skömmu spurði ég 7 ára kunningja minn að því hvað hann ætlaði sér að verða
þegar hann yrði stór. Hann kvaðst ætla að verða annað hvort hljóðfæraleikari eða
vísindamaður, - hikaði svo og sagði: „Alla vega ætla ég að verða frægur.“ Eg innti
hann eftir því hvers vegna hann vildi verða frægur. Hann leit á mig undrandi. Honum
þótti svarið greinilega liggja í augum uppi: „Af því að þá vita allir að ég er til.“
Flest böm eiga sér sjálfsagt svipaðan framtíðardraum um frægð og frama og þessi
drengur. Með auknum aldri og þroska tekur draumurinn yfirleitt á sig raunsærri blæ
eða hverfur að mestu leyti. Stundum gerist það að draumurinn eldist ekki af okkur og
við verðum sífellt háð því að vera sett á stall og dáð af öðrum. Jafnvel verðum við að
vera best eða fegurst allra - eins og stjúpan í ævintýrinu um Mjallhvíti - til þess að
okkur finnist við „vera til“.
I nágrannalöndum okkar, sérstaklega á Norðurlöndunum, hefur í rúman áratug verið
áberandi umræða um „breytta" eða „nýja“ manngerð í nútímaþjóðfélagi. Því er haldið
fram að það sé algengara en áður að fólk á Vesturlöndum sé upptekið af sjálfu sér, eða
þurfi staðfestingu annarra á eigin ágæti. Einnig hefur verið rætt um breytta hegðun og
tilfinningalega erfiðleika, sérstaklega meðal barna og unglinga, og er þá m.a. vitnað í
einkenni eins og tilfinningadoða, rótleysi og áhugaleysi.1
í umræðum um nýja manngerð varð hugtakið narcissismi - sem er gamalt hugtak -
eins konar lausnarorð, þar sem margir töldu það henta vel til að túlka þetta ástand og
skýra orsakir þess. Helsti gallinn á þessu hugtaki er að það hefur verið illa afmarkað
og haft margs konar merkingu, en það hefur spannað vídd sem nær yfir ytri einkenni á
ákveðnum hópum einstaklinga, m.a. unglingum, allt upp í alvarlega geðræna
erfiðleika. Hugtakið hefur verið notað um einstaklinga eða hópa, heil þjóðfélög eða
menningarsvæði, og mjög oft í umræðu um unglingamenningu.
Stundum hefur orðið sjálfsdýrkun verið notað sem íslensk þýðing á orðinu
narcissismi og er þá yfirleitt verið að vísa í ytri einkenni, m.a. á þeim sem virðast
ofurseldir óhóflegri líkamsrækt eða skreytiþörf. Hér verður hugtakið einkum notað urn
innra sálrænt ástand og hef ég kosið að þýða það með orðinu sjálfhverfa og tala þá í
samræmi við það um sjálfhverfe.inkenni.
Ég fjalla hér um narcissismaumræðuna í þeirri von að sú umfjöllun geti verið
gagnlegt innlegg í umræður um íslenska unglinga. Þessi kynning er þó langt frá því
að vera tæmandi, enda er efnið mjög yfirgripsmikið. Óhjákvæmilegt er að stikla á
stóru yfir sumt - og markast umfjöllunin þá að einhverju leyti af mínum túlkunum -
* Sjá m.a. Illeris o.fl. 1982; Mpller 1983; Mphl 1990 og Wolfgang Edelstein 1986.
242