Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Qupperneq 246
Ragnhildur Bjarnadóttir
í Bandaríkjunum. Kohut telur að ekki skipti mestu í skilgreiningu á vanda hins sjálf-
hverfa hvort mikilvæg eðlishvöt eða eðlislæg tilfinning, t.d. ástin, beinist að manni
sjálfum eða öðrum. Kohut vill skilgreina sjálfhverfu eftir því hvers konar tengsl
einstaklingurinn hefur við aðra. Sjálfhverf tengsl við aðra eru óþroskuð og má merkja
þau af því að einstaklingurinn notar aðra til að finna stöðugleika í sveiflukenndri
upplifun af sjálfum sér, en óstöðug sjálfsvitund er aðalvandi hins sjálfhverfa að mati
Kohuts. Ómeðvitað upplifir hann aðra einstaklinga (oftast nákomna) sem hluta af
sjálfum sér og notar þá í þeim tilgangi að skynja sjálfan sig sem heilsteypta, og þar
með örugga, manneskju. Ef sá einstaklingur, sem hinn sjálfhverfi tengist á þennan
hátt, bregst vonum hans eða hegðar sér öðruvfsi en hann ætlast til, fyllist hann gjarnan
óttablandinni reiði sem fær útrás ýmist í reiðiköstum, ofbeldi, fyrirlitningu eða kulda.
Öryggisleysið birtist líka í þörf viðkomandi fyrir að vera „almáttugur", fullkominn eða
stórkostlegur á einhverjum sviðum og þess vegna dáður af öðrum. Þessi óhóflega þörf
fyrir aðdáun eða dýrkun yfirfærist einnig á aðra nákomna, sem eru þá hafnir til
skýjanna sem guðdómlegir, gallalausir einstaklingar. („Þú ert stórkostlegur en þú ert
líka hluti af mér.“) Samkvæmt kenningu Kohuts er það þörfin jyrir öryggi sem er hið
stýrandi afl að baki einkennunum, ekki sjálfsást eða sjálfsfyrirlitning, enda forðast
sjálfhverfur einstaklingur yfirleitt aðstæður sem ógna reikulu sjálfsáliti hans.5
Þetta tilfinningalega ástand einstaklingsins má rekja til bernskuáranna. Barnið er
mjög háð tilfinningatengslum við foreldri. Barnið hefur þörf fyrir að skynja sig
stórkostlegan og gallalausan einstakling í augum foreldris og er jafnframt háð þeirri trú
sinni að foreldrið sé fullkominn einstaklingur. Foreldrið er sá einstaklingur sem barnið
á allt sitt undir. I nánum samskiptum barns og foreldris ættu þessi tengsl að þróast
þannig að barnið greini sjálft sig tilfinningalega frá foreldrinu, öðlist sjáfstraust og
sjálfsvirðingu og geti sætt sig við að foreldrið hafi bæði kosti og galla. Sjálfhverfa er
merki um bresti í þessu þróunarferli.
Að mati Kohuts eru sjálfhverfir einstaklingar sjaldnast sjúkir heldur er þetta venju-
legt fólk sem á við mismikla tilfinningalega erfiðleika að etja. Þeir sem leita sér
aðstoðar vegna slíkra erfiðleika kvarta yfirleitt undan tilfinningadoða, áhugaleysi og
skorti á frumkvæði. Kohut er í hópi þeirra fræðimanna sem heldur því fram að þetta
ástand sé ekki að öllu leyti neikvætt, það geti haft jákvæðar hliðar, m.a. verið
uppspretta skapandi krafta, áhuga á öðru fólki og starfsgleði. Sjálfhverfir einstaklingar
eru gjarnan mjög næmir, og þeim er eiginlegt að vera leitandi og starfsamir. Þeir
sveiflast milli þeirrar tilfinningar að vera stórkostlegir og þess að skynja sig van-
máttuga og sjálfum sér til skammar. Sem mótvægi gegn þeim tómleika og þunglyndi,
sem ógnar þeim vegna þessarar innri togstreitu, leita þeir gjarnan að samhengi og heild
- sem þá veitir þeim tilfinningalegt öryggi - í listsköpun eða mikilli virkni á ýmsum
sviðum. Miklu skiptir fyrir sálarheill einstaklingsins að hann geri sér grein fyrir
ástandi sínu þannig að hann sé bœði fær um að tengjast öðrum á eðlilegan hátt og geti
sökkt sér niður í sjálfhverft ástand sem er rót skapandi athafna. Kohut telur eðlilegt að
sjálfhverfa sé ríkjandi ástand á bernskuárum. Hún getur þróast á jákvæðan hátt þannig
að hún veiti lífsfyllingu og gleði en getur líka leitt til stöðnunar og erfiðleika. Svipuð
^ Kohut 1977; Frimodt 1983; Mpller 1983; Mphl 1990.
244