Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 251
Ragnhildur Bjarnadóttir
orðnar hluti af daglegu lífi heimilisfólksins, gefur dagdraumunum byr undir báða
vængi. Draumaheimurinn og blákaldur veruleikinn geta verið æði andstæðir pólar.
Sú hlið kenninga Ziehes, sem hér hefur verið varpað ljósi á, einkennist af töluverðri
svartsýni. En hann spinnur þessa umræðu áfram og yfir á bjartari nótur er hann fjaliar
um sérstaka unglingamenningu. Bjartsýnin felst aðallega í þeirri trú Ziehes að sam-
kennd unglinga, þar sem gömlum, og að hans mati spilltum, viðmiðunum er afneitað,
sé sú spíra sem með auknum vexti geti síðar meir kollvarpað spilltu siðgæði og
rugluðu gildismati og feli í sér vaxtarbrodd manneskjulegra samfélags. Þetta sjónarhom
hefur verið mikið rætt meðal uppeldisfræðinga og kennara.20
Miklar umræður hafa orðið um kenningu Ziehes og varla þarf að taka fram að hún
hefur verið afar umdeild og gagnrýnd af mörgum. Bækur Ziehes hafa jafnvel verið
gagnrýndar fyrir að vera óvísindalegar og þess vegna sé ekki um raunverulega
sálfræðilega kenningu að ræða. Hann er m.a. gagnrýndur fyrir að ganga út frá óljósum
forsendum og taka nokkuð hrátt mið af þeirri „staðreynd" að ákveðin sálræn einkenni
séu algengari í ákveðnum hópum nú en áður. Erfitt er að sanna að svo sé í reynd.
Gestur Guðmundsson félagsfræðingur fjallar um kenningu Ziehes í grein um æsku-
lýðsrannsóknir. Hann telur úttekt Ziehes á „menningalegri upplausn eftirstríðsáranna“
ekki sérlega frumlega, en að mati Gests felst framlag hans einkum í að „sýna hvernig
þessi upplausn virkar á persónuþroska einstaklinganna, einkum á unglingsárum.“21
Umræða, þar sem tekið er mið af kenningu Ziehes, var áberandi á fyrri hluta níunda
áratugarins en á þeim tíma voru félagsmótunarkenningar og samfélagsgagnrýni mjög í
tísku. Sú mikla vantrú á mátt einstaklingsins í ógnandi samfélagi, sem einkenndi
umræðu þess tíma, nýtur ekki sömu hylli nú. A seinustu árum er almennt ekki talið
að áhrif félagsmótunar séu jafn einhlít og kemur fram hjá félagsmótunarsinnum eins
og Ziehe, þ.e. að þau hafi nánast sömu áhrif á alla, og þykir lítill akkur í því að skella
skuld ófara einstaklinganna einungis á „vond“ samfélög. En þrátt fyrir ýmsa annmarka
lít ég svo á að hugmyndir Ziehes séu afar áhugaverðar. Það má heldur ekki gleyma því
að sumt af því sem hann leggur áherslu á er hluti af víðtækari umræðu. Ymsir aðrir
hafa fjallað um sérstaka unglingamenningu, þar sem andstaða við ríkjandi gildi hinna
fullorðnu er höfð að leiðarljósi (m.a. þeir sem tilheyra stefnu sem kölluð er Birming-
ham-skóli). Ziehe er heldur ekki einn um að líta svo á að sjálfhverfa sé sú sköddun á
sjálfsvitund sem einkenni einstaklingana í nútímasamfélagi.22 Sjálfsvitund ein-
staklinga hlýtur að vera brothættari í ölduróti hraðra samfélagsbreytinga en í stöðugu
samfélagi.
Til að skýra þau sálrænu einkenni á unglingum sem oft eru tengd við sjálfhverfu,
s.s. tilfinningadoða og rótleysi, hefur einnig verið gripið til annars konar félagslegra
skýringa en þeirra sem Ziehe beitir. I mörgum tilvikum hefur verið stuðst við
kenningu Durkheims um áhrif siðrofs (anomi) á félagsleg tengsl einstaklinganna.23
Durkheim hélt því fram að siðferðið í samfélaginu og sameiginleg gildi væri sá
Sjá m.a. Bjerg o.fl. 1983, Halse 1986 og Illeris 1984.
2( Gestur Guðmundsson 1989:21.
22 Sjá m.a. Lauridsen 1982.
22 Durkheim 1972.
249