Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 253
Ragnhildur Bjarnadóttir
sem hann hefur þörf fyrir til að þroskast og mynda jafnframt mikilvæg andleg bönd
milli þeirra sem sameinast um hefðirnar og viðmiðin.27 Durkheim hefur því af
mörgum verið talinn íhaldssamur en kenningar Ziehes teljast róttækar og gagnrýnar.
Þegar leitast er við að skýra rótleysi unglinga með hliðsjón af kenningu Durkheims er
talið að sú reglufesta og kjölfesta, sem hefðir og venjur mynda, séu einstaklingnum
nauðsynlegar, jafnvel þótt þær megi gagnrýna. Sjónarhorn þeirra, sem hafa svipaðar
skoðanir og Ziehe, er gagnrýnna á ríkjandi hefðir í samfélaginu og einkum á foreldrana.
Tengsl milli foreldra og barna eru talin vera sködduð þar sem börnin eru til fyrir
foreldrana - en ekki öfugt. Samkvæmt kenningu Durkheims má aftur á móti halda því
fram að náin tengsl myndist ekki milli foreldra og barna þar sem hefðir og venjur
sameini þau ekki.
Það þykir kannski skjóta skökku við að draga rannsóknir og hugmyndir Durkheims
inn í þessa umfjöllun um félagssálfræðilegar skýringar á sjálfhverfu.28 Durkheim er
kallaður til sögunnar vegna þess að mér finnst samfélagslýsing hans eiga vel við um
íslenskar aðstæður. Ziehe notar ýmsar sálfræðikenningar til að skýra áhrif siðspillingar
á persónuþroska einstaklinganna. Sömu kenningar má nota til að túlka það sem gerist
innra með þeim einstaklingum sem samkvæmt kenningu Durkheims eru fórnarlömb
siðrofs. Með tilvísun í bæði þessi sjónarhorn má leiða að því líkur að samfélagsgerðin
og gildismatið í nútímasamfélagi geti af sér það öryggisleysi í samskiptum foreldra og
barna sem samkvæmt kenningu Kohuts leiðir til sjálfhverfra tengsla.
Rétt er að árétta að hugtakið sjálfhverfa (narcissismi) er notað til að varpa ljósi á
margt annað en nýja manngerð í nútímasamfélagi og aðstæður unglinga. Segja má að
eftir óhóflega aðdáun á hugtakinu á árunum 1980-1985 hafi komist jafnvægi á notkun
þess og hefur það gjarnan verið notað í skrifum um líðan fólks og mannleg tengsl; t.d.
notar Colette Dowling hugtakið í bók sinni Perfect Women til að varpa ljósi á tengsl
móður og dóttur og þörf kvenna fyrir að vera fullkomnar29. 1 fyrrnefndu riti sínu,
Pœdagogisk professionalitet, fjallar Dale um þetta hugtak, m.a. í þeim tilgangi að
skýra orsakir innri togstreitu og starfsþreytu meðal kennara. Einnig hefur hugtakið
töluvert verið notað í bókmenntaumræðu.
Unglingar í íslensku samfélagi
í kaflanum hér að framan var dregin upp mynd af umræðu á Norðurlöndum og víðar þar
sem athyglin beinist einkum að unglingum og aðstæðum þeirra. En hvað um íslenska
unglinga? Eru þau einkenni sem oft eru kennd við sjálfhverfu - rótleysi, virðingarleysi,
tilfinningadoði, ósjálfstæði og hömlulaus reiði - áberandi í fari þeirra?
Það er örugglega ljóst öllum þeim sem umgangast unglinga að einhverju ráði að
langt er frá því að slíkt ástand sé almennt meðal unglinga. Margir unglingar eru afar
virkir á mörgum sviðum, áhugasamir og tillitssamir við aðra, og virðast meira að
^7 Pétur Pétursson 1992.
Þessi kenning Durkheims er nærri einnar aldar gömul en í hana hefur oft verið vitnað,
kannski einkum vegna þess að hún virðist hafa staðist vel athuganir fræðimanna (Sjá
m.a. Þórodd Bjarnason o.fl. 1991).
Dowling 1988.
251