Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Qupperneq 255
Ragnhildur Bjarnadóttir
viðtölum við þá, bentu til þess að þeir væru afar öryggislausir og stutt í vanmátt og
vonleysi. Flestir þeirra áttu félaga eða vini, tilheyrðu föstum félagahópi, og það var
ljóst að þeir fengu mikinn tilfinningalegan stuðning og styrk frá hópnum. En þeim
leið illa út af eigin hegðun, stöðugu stríði við foreldra og skóla og lélegri sjálfstjórn.
Draumakennarinn var strangur en sanngjarn kennari sem réð við þá. Sjálfsvirðing og
virðing fyrir öðrum í hópnum var afar bágborin. Þeir nemendur, sem þeir vildu helst
líkjast, voru andstæður þeirra. Þeir töluðu með stjörnur í augunum um þessa „gaura“
sem „gátu allt en voru samt ekki leiðinlegir“. Hugmyndir um hvað væri rétt og hvað
rangt voru mjög á reiki, æðsta dyggð var yfirleitt að hafa þor til að hefna þess sem gert
var á hlut vina þeirra.32
Töluverður hópur unglinga í Reykjavík er heimilislaus eða flækist á milli tíma-
bundinna dvalarstaða. Sunnudaginn 14. mars sl. var rætt við nokkra þeirra í Ríkis-
útvarpinu. Ein stúlkan, Anna, sagði: „Ég hef alltaf öfundað þá krakka sem vita hvað
þeir vilja. Ég hef aldrei vitað hvað ég vil. Ef einhver kemur og segir „Hei, eigum við
að gera þetta?“ þá segi ég bara „já“.“ Síðar í viðtalinu sagði hún: „Sumir foreldrar hata
börnin sín. Mamina mín elskaði mig alveg út af lífinu.“ Önnur stúlka, Fríða, sem býr
núna með hópi krakka, sagði: „Mér finnst verst að ég ber aldrei neinar tilfinningar til
þessara krakka. Ef einn flytur úr hópnum er mér alveg sama. Það kemur alltaf einhver
annar í staðinn.“
Unglingunum í öllum þeim dæmum, sem tilgreind eru hér að framan, er sameigin-
legt að þeim líður ekki vel. Margir þeirra hafa lítið sjálfstraust, vanmáttur og öryggis-
leysi virðist einkenna þá. Reyndar er óörugg sjálfsvitund gjarnan talin einkenna
unglingsárin, einnig mótmæli og sjálfstæðisbarátta, þannig að ástandið þykir kannsi
að einhverju marki eðlilegt. En ljóst er að í mörgum tilvikum er ástandið alvarlegra en
svo að líta megi á það sem eðlilega uppreisn og sjálfstæðisbaráttu unglinga, það er að
segja ef þá virðist skorta það grundvallarsjálfstraust og sjálfsvirðingu sem er forsenda
þess að þeir kynnist sjálfum sér, eigin tilfinningum, þörfum og vilja, og myndi góð
tengsl við aðra.
Tengsl þessara ungmenna við aðra virðast vera brothætt, endast illa eða markast af
ósjálfstæði. Athugun mín leiddi í ljós að félagatengslin eru háð því að krakkarnir lagi
sig að gildismati og viðmiðum í ákveðnum hópum. Hið sama má segja um þá sem
hringja í Rauðakrosshúsið. Tengsl margra þessara krakka við aðra virðast reyndar hafa
flosnað upp þannig að samkvæmt kenningu Durkheims teldust þeir vera í áhættuhópi.
í öllum tilvikum minnir margt á þau sködduðu tengsl sem Kohut lýsir og telur bera
vott um sjálfhverft ástand; meðal annars virðast markmið tengslanna við annað fólk og
„fegraðar“ ímyndir vera að öðlast það öryggi sem þeir finna ekki innra með sér. Þeir
unglingar, sem hér er verið að vitna til, eru margir hverjir einmana, leit þeirra að
sjálfsímynd mótast af óraunsæi þannig að þeir lenda auðveldlega í hlutverki hins mis-
heppnaða. Mér virtust þeir unglingar, sem athugun mín beindist að, hafa stuðning af
félagahópnum, hann veitti þeim nokkurs konar hjálp í viðlögum þegar þeim leið illa,
en einnig var hann þeim hemill þegar þeir vildu brjótast út úr óæskilegu hegðunar-
mynstri. Þrátt fyrir mikilvægi hópsins fyrir einstaklingana gat ég ekki séð merki þess
3 2 Ragnhildur Bjarnadóttir 1988 og 1989.
253