Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 271
Sigrún Aðalbjarnardóttir
Breytingar á samskiptum nemenda
Kennararnir nefndu hver og einn ýmsa þætti í samskiptum nemenda sem þeir töldu vott
um framfarir þeirra. Hér verða tekin nokkur dæmi. Brýnt er þó að hafa í huga að hér eru
kennararnir að leita eftir framförum, þ.e. jákvæðum þáttum í samskiptunum. Að
sjálfsögu var við ýmsan samskiptavanda að etja eftir sem áður þótt ýmislegt horfði til
betri vegar.
Kennararnir voru sammála um að góður andi hefði skapast í bekknum við að taka
skipulega á þessum málum. Nemendur hefðu orðið opnari, einlægari og vingjarnlegri
eftir því sem á leið. Einn kennaranna segir t.d.:
Nemendur virðast hreinskilnari innbyrðis og þora að segja það sem þeim finnst.
Einnig var nefnt að nemendur hefðu orðið tillitssamari, skilningsríkari og umburðar-
lyndari:
Ég hef séð ýmsar breytingar á barnahópnum varðandi samskiptamunstrið, t.d. hvernig
börnin bregðast við þegar einhver á erfitt í bekknum, hvað þau sýna ótrúlega mikið
umburðarlyndi og þolinmæði. Ég sé þau hugsa meira um samskiptin og einnig um
framkomu sína og annarra í bekknum. Þau viðurkenna betur að við erum öll ólík og
höfum rétt til þess.
Kennararnir nefndu einnig að nemendur virtust hlusta betur hver á annan og væru ekki
eins dómharðir hver í annars garð:
í allan vetur hafa umræður verið í gangi um samskipti, tillitssemi, umgengni,
heiðarleika og fleira. Flestir virðast lifa sig inn í það munstur að standa sig í félags-
legum samskiptum, þ.e. virða skoðanir, tilfinningar og hugsanir annarra. Þegar á
reynir og í hita leiksins vilja góð áform oft gleymast, en þegar sest er niður rifjast allt
upp.
Kennari eldri barna segir svo um breyttan andblæ í bekknum:
Það sem hefur breyst í bekknum í vetur er: Klögumál úr frímínútum eru svo til hætt, en
þau voru mjög algeng áður. Stríð og slagsmál milli nemenda eru úr sögunni. Nemendur
virðast umburðarlyndari. Þeim gengur betur að vinna í hópum og virðast ánægðari í
skólanum þar sem kvartanir heyrast varla, en nöldur var mjög algengt.
En stundum nær breytingin ekki út fyrir skólastofuna. Einn kennarinn segir svo um
erfiða nemendur sína:
Þótt samskiptin gangi núna mun betur inni í skólastofunni kemur óþekkt sumra
barnanna fram gagnvart starfsfólki við sundlaugina, í leikfimishúsinu og á göng-
unum. Sem sagt uppeldisáhrifin ná ekki út fyrir skólastofuna.
Sumir kennaranna nefna aukna hópkennd:
Nemendur halda meira saman og leita eftir skoðunum hinna í hópnum.
Samskipti milli nemenda eru nú mun opnari en áður og þeir hafa náð nokkurri þjálfun í
að skilgreina vandamál og leita sameiginlegra og einstaklingsbundinna lausna.
Stundum finnst mér styrkleiki hópsins jafnvel full mikill. Það er sjálfsagt vand-
rataður meðalvegurinn hér sem annars staðar.
269