Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 278
V
Sigurður Júl. Grétarsson
um getu nemenda eftir stöðluðum leiðum og beita traustum aðferðum til þess að meta
árangur af skólastarfi. Með hlutlægum athugunum er átt við að breytur, til dæmis í
rannsókn á árangri af notkun tiltekinnar kennsluaðferðar eða í athugun á kunnáttu
nemanda, hafi raunvísan grunn. Þannig mat er bundið skýrt skilgreindum flokkum eða
tengt kvörðum sem hafa beina hlutlæga tilvísun. Til dæmis mætti athuga góða
lestrarkennslu með þeim hætti að tíu eða fleiri skoðanleg atriði í aðferðum kennara yrðu
könnuð, sum með vettvangsathugun, önnur með öðrum mælileiðum. Mælingarnar
yrðu síðan sannreyndar með því að bera þær saman við nokkrar viðmiðanir um árangur.
Svona aðferðir mótast ekki í einni svipan en verða, þegar vel tekst til, raunhæfur
grundvöllur skynsamlegrar umræðu.
Hér er um að ræða hefðbundna aðferðafræði7 og undirgrein hennar, hefðbundna
mælingafræði8 þar sem hugtökin áreiðanleiki og réttmæti gegna veigamiklu hlutverki.
Þess er krafist að upplýsinga sé leitað með kerfisbundnum athugunum og sýnt að
mælingar séu nógu stöðugar til þess að sama niðurstaða fáist ef mælt er aftur - og
einnig að staðfest sé með viðurkenndum hætti að sú aðferð sem viðhöfð er mæli það
sem ætlast er til. Það fer eftir eðli verkefna hvaða aðferðir eru notaðar og rétt að athuga
að hægt er að ná langt í þessum efnum með því að nota tiltölulega einfaldar aðferðir.
Rétt er að ítreka, áður en lengra er haldið, að hér er ekki verið að lýsa nýjung.
Kröfur um hlutlægni eru grundvallaratriði í vísindabyltingu á nýöld og saga sálar-
fræðinnar og annarra félagsvísinda mótast mjög af tilraunum til þess að koma til móts
við þessar kröfur.9 Sumir halda því fram að í engum fræðum hafi átök um hlutlægni-
kröfur skipt meira máli og verið teknar af meiri alvöru en í félagsvísindum, einkum í
sálarfræði,10 jafnvel stundum svo, að einber og einstrengingsleg áhersla á hlutlægni
hafi orðið greininni nokkur fjötur um fót. En ofuráhersla á mælingu sem heimspeki-
legan grunn merkingar að hætti rökfræðilegrar atferlishyggju beið skipbrot og enginn
heldur því lengur fram að öll orð eða yrðingar, sem ekki vísa til hlutlægra fyrirbæra,
hljóti að vera merkingarlaus. Jafnframt er leit fræðimanna að grunnlögmálum um
mannlega hegðun ekki eins áköf og áður og aðferðafræðin ekki sniðin að líkani
eðlisfræðinnar.* 11 Alhæfingarfíkn og stórkenningardraumar ráða ekki ferðinni.
Samt hafa kröfur um hlutlægar mælingar síst minnkað í mann- og félagsvísindum
hin síðari ár. Þó þær séu ekki lengur taldar grundvöllur merkingar og heimspekileg
réttlæting þeirra hafi breyst þá grundvallast allar greinar á öflugu rannsóknarstarfi.
Hlutlægni er nauðsynleg til þess að maður geti áttað sig á grundvelli eigin dóma en þó
einkum til þess að geta gert öðrum grein fyrir þeim án þess að allt sé hulið þoku, leynd
og fordómum.
Ekki er annað að sjá en að íslenskir kennarar geri sér góða grein fyrir mikilvægi
mats á skólastarfi. I Skólastefnu Kennarasambandsins er til dæmis lögð áhersla á
„mikilvægi þess að kennarar meti stöðugt og á skipulegan hátt það starf sem fram fer í
^ Cook og Campbell 1979.
8 Nunnally 1978.
^ Sjá t.d. Robinson 1986.
10 Daston 1982.
11 Kagan 1984.
276