Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 305
Sigurjón Mýrdal
byggði á tæknihyggju í efnahags- og félagsmálum og tók sterkan lit af velferðar-
hagfræði Keynes.35
Wolfgang Edelstein talar t.d. um „þrástef O.E.C.D. um efnahagslega þýðingu
menntunar, kenninguna um þriðja þáttinn sem leggur áherslu á þann hlut sem
hæfileikafólk í atvinnuvegum á í hagvexti".36
í anda þessara hugmynda var ráðist í stjórnskipaðar breytingar á íslenska skóla-
kerfinu á 7. áratugnum undir forystu menntamálaráðherra viðreisnarstjórnarinnar, Gylfa
Þ. Gíslasonar, sem jafnframt var viðskiptaráðherra. Grunnur umbótanna var lagður í
Efnahagsstofnuninni sem opnuð var 1962 í Reykjavík, samkvæmt fyrirmyndum frá
OECD, til að vinna að endurbótum í íslensku efnahagslífi.
Árið 1966 var ráðinn sérfræðingur í skólamálum að menntamálaráðuneytinu, Andri
Isaksson, til að vinna að rannsóknum og tillögum um endurskipan menntakerfisins.
Skólarannsóknadeild var síðan stofnuð innan ráðuneytisins árið 1968 til að hrinda
gagngerum umbótum á skólakerfinu í framkvæmd. Þetta umbótastarf í íslenska
menntakerfinu var liður í umfangsmikilli nýskipan hugmynda og stofnana í heimskerfi
eftirstríðsáranna.37
Nýjar hugmyndir og kenningar um skólamál gegnsýrðu umbótastarfið og birtust á
8. áratugnum, m.a. í nýjum fræðslulögum, reglugerðum, námskrám og umsvifa-
mikilli endurmenntun kennara. Voru erlend áhrif þarna spunnin saman við íslenskar
aðstæður eftir því sem henta þótti. Nýjar kenningar um námskrárfræði og
kennslutækni voru kynntar á umræðuvettvangi skólamála.38
Ýmsar breytingar höfðu að sjálfsögðu orðið á starfsskilyrðum íslenskra kennara í
tímans rás. Þeim má líkja við þróun þar sem kennarar og samtök þeirra tóku virkan
þátt í að laga ýmsa þætti skólastarfsins að breytilegum kröfum samtímans.39 Hinu
miðstýrða breytingaátaki á vegum Skólarannsóknadeildar á 7. og 8. áratugnum má hins
vegar líkja við byltingu þar sem allsherjar uppstokkun var gerð á barnafræðslunni og
fleiri þáttum skólakerfisins. Það er mikilvægt að átta sig á að nú var breytingastarfið
ekki leitt af kennarastéttinni sjálfri, heldur nýrri fagstétt uppeldis- og kennslufræðinga,
einkum á sviði námskrárfræða og kennslutækni. Að vísu kom snemma að því að
skortur var á sérmenntuðu starfsfólki á mörgum sviðum. Wolfgang Edelstein, sem frá
upphafi var ráðgjafi menntamálaráðuneytisins um breytingarstarfið, segir t.d. um
stofnun Skólarannsóknadeildar: „Nú skyggði ekkert á þetta bjartsýna fyrirtæki nema
skortur á sérfræðilega menntuðum fagmönnum - tilfinnanlegur skortur á hæfu
starfsliði til að vinna verkið.“40
35 Sigurjón Mýrdal 1989; Wolfgang Edelstein 1988:253-281; sjá einnig Ingólf Á.
Jóhannesson 1991; Ingvar Sigurgeirsson 1992 og Þorstein Gunnarsson 1990.
36 Wolfgang Edelstein 1988:259.
37 Sigurjón Mýrdal 1989; Ólafur Proppé o.fl. 1991; Wolfgang Edelstein 1988, bls. 43-
61 og bls. 81-107.
38 Wolfgang Edelstein 1988:191-237; sjá einnig Andra ísaksson 1983 og Sigríði
Valgeirsdóttur 1983.
39 Ólafur Proppé 1983; Jónas Pálsson 1978; sjá einnig Mattías Jónasson og Sveinbjörn
Sigurjónsson 1962.
46 Wolfgang Edelstein 1988:260-261.
303