Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Page 322
Þuríður J. Kristjánsdóttir
Niðurstöður þeirra viðræðna má sjá á því að engin öldungadeild var við skólann
þennan vetur.
Þrengslin í Kennaraskólanum jukust síðan svo mjög næstu ár að um 800 nemendur
voru í rúmlega hálfbyggðu skólahúsi sem fullbúið átti að rúma um 300. Réttindanám í
skólanum var þar með úr sögunni.
Réttindanám við Kennaraháskóla Islands
1. Nám fyrir gagnfrœðaskólakennara sem voru settir um óákveðinn tíma.
Þótt ekki tækist að koma á réttindanámi á árunum 1963-65 og nokkur þögn ríkti um
málið næstu ár var það þó ekki úr sögunni. Arið 1971, sama ár og Kennaraháskóli
íslands tók til starfa, leitaði þáverandi menntamálaráðherra, Magnús Torfi Ólafsson,
álits Félags háskólamenntaðra kennara og Landssambands framhaldsskólakennara á því
að skipaðir verði í stöður sínar þeir kennarar sem starfað höfðu sem settir 1963 eða
fyrr, en efnt yrði til námskeiðs fyrir þá sem settir höfðu verið um óákveðinn tíma 1964
eða síðar. Um var að ræða 74 kennara í fyrri hópnum og 68 í þeim síðari. Þótt það
kæmi hvergi fram í bréfum mun hér vera um gagnfræðaskólakennara í bóklegum
greinum að ræða. Bæði félögin sem leitað var til tóku vel í þessa hugmynd og námið
hófst við Kennaraháskólann sumarið 1973.
Þetta nám, sem fram fór við Kennaraháskólann árin 1973 og 1974, er hvað undar-
legast af öllu réttindanámi þar sem það gaf ekki almenn kennararéttindi heldur réttindi
til að fá skipun í stöðu sem viðkomandi þegar gegndi, settur um óákveðinn tíma. Gátu
menn sem náminu lykju átt á hættu að fá ekki skipun ef þeir fluttu milli staða. Lét
einn þeirra, sem lauk þessu námi, reyna á það skömmu síðar hvort réttindi til skipunar
féllu niður ef hann flyttist milli skóla og var að lokum úrskurðað að svo væri ekki.
Þannig varð námið að lokum eiginlegt réttindanám. Nám þetta var fyrir bóknáms-
kennara á gagnfræðastigi, en þar var hlutfall réttindalausra kennara nánast með
ólíkindum. Réttindalausir kennarar héldu skólunum uppi og margir þeirra höfðu kennt
mjög Iengi. I ályktun aðalfundar félags háskólakennara 12. júní 1970 eru þær upp-
lýsingar, fengnar úr yfirlitsskýrslu fræðslumálaskrifstofunnar um kennara og
skólastjóra gagnfræðastigsins skólaárið 1968-69, að aðeins 16,5% bóknámskennara á
því stigi hafi fyllstu réttindi til kennslu. I sömu ályktun er vikið að skyldum Háskóla
Islands varðandi menntun kennara og nauðsyn þess að launa kennara þannig að starfið
verði eftirsóknarvert. Þá segir: „Fundurinn [...] krefst þess að ekki verði lengur skotið
á frest að setja skýr og ótvíræð lagaákvæði um menntun og réttindi bóknámskennara á
gagnfræðastigi [...]“ Það var urgur í fleirum yfir þessu ástandi en hvorki auðgert né
fljótgert að bæta um, en til að bæta stöðu og menntun kennara sem voru settir um
óákveðinn tíma ákvað menntamálaráðuneytið að efna til námskeiðs fyrir þá eins og
þegar hefur komið fram.
Námið var síðan auglýst í apríl 1973. I auglýsingu segir m.a.:
Hér er um að ræða eins árs nám, sem skiptist á uppeldisgreinar og einstakar
námsgreinar, sem kenndar eru á gagnfræðastigi, og skal hver þátttakandi stunda
uppeldisgreinar og aðalgreinar eftir vali. Námstíminn skiptist á tvö sumur, 6-8 vikur
hvort sumar, og heimanám og bréfaskóli einn vetur. [...] Gert er ráð fyrir að unnt sé að
stunda þetta nám samhliða kennslu. Rétt til þátttöku á námskeiðinu hafa allir kennarar
320