Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Qupperneq 325
Þuríður J. Kristjánsdóttir
3. Réttindanám grunnskólakennara skv. lögum um lögverndun á starfsheiti og
starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.
Reglugerð um það réttindanám, sem koma skyldi í kjölfar laga um lögverndun starfs-
heitis og starfsréttinda grunn- og framhaldsskólakennara og skólastjóra, var sett 23.
sept. 1987. Eins og áður sagði áttu rétt á þessu námi kennarar sem ekki fullnægðu
skilyrðum laganna en höfðu verið settir í sex ár hið skemmsta. Samkvæmt úrskurði
ráðherra var stundakennsla sem samsvaraði a.m.k. hálfu starfi látin gilda í stað
setningar. Nemendur skyldu vera í þremur flokkum. Þeir sem höfðu lokið háskólaprófi
í kennslugrein grunnskóla áttu að Ijúka 30 eininga námi í uppeldisgreinum. Stúdentar
og aðrir með nám að baki, sem metið væri sambærilegt stúdentsprófi, skyldu ljúka 30
einingum í uppeldisgreinum, einni valgrein sem væri 10 einingar og 8 einingum í
kjarnagreinum skólans, þar með taldar íslenska og stærðfræði. Þeir sem höfðu minna
nám að baki en þetta skyldu ljúka, auk 30 eininga í uppeldisgreinum, tveimur
valgreinum, sem væru 10 einingar hvor, og 10 einingum í kjarnagreinum, þar með
taldar íslenska og stærðfræði.
Boðið var upp á allar valgreinar skólans nema tónmennt, auk þess var hægt að taka
kennslu yngri barna sem valgrein. Of fáir sóttu um sumar greinarnar og féllu þær
niður. Valgreinar í réttindanáminu voru því íslenska, enska, stærðfræði, hannyrðir,
myndmennt, hússtjórn og kennsla yngri barna. Kjarnagreinar voru, auk íslensku og
stærðfræði, líffræði, kristinfræði, myndmennt og tónmennt.
í þetta síðasta réttindanám innrituðust 116 kennarar. Atta þeirra hófu ekki námið og
34 hafa hætt á námstímanum, flestir á fyrsta árinu. Af þeim 74 sem þá eru eftir eru 18
karlar og 56 konur. Hafa 32 þeirra lokið námi nú, í apríl 1992, hinir eiga að ljúka í
júní 1992. Það eru þeir sem minnst nám höfðu að baki auk nokkurra sem áttu að ljúka
1991 en náðu því ekki. Aðeins þrír af þessum 74 höfðu háskólapróf í kennslugrein
grunnskóla. Tveir þeirra kusu að fylgja stúdentunum og tóku því meira nám en reglu-
gerðin kvað á um. í stúdentahópnum voru 44 og í þriðja hópnum 27 kennarar. Nokkrir
stúdentanna tóku meira nám en þeim bar og fylgdu því síðasta hópnum.
Fyrirkomulag námsins var hið sama og í réttindanáminu sem hófst 1979. Þetta
síðara nám hófst í janúar 1988 og stendur því í hálft fimmta ár hjá þeim sem mestu
þurfa að ljúka. Það verður að teljast vel af sér vikið að halda svo lengi út kröfuhart
nám með öðrum störfum, sem oft hefur ekki verið hægt að minnka við sig þótt menn
hafi viljað.
Sögu réttindanáms lýkur sennilega með þessu síðasta námi. Við Kennaraháskólann
er verið að undirbúa fullt kennaranám sem á vera dreift og sveigjanlegt þannig að hægt
verði að einhverju eða miklu leyti að stunda það heima á sama hátt og réttindanámið
nú. Miðað við hve þaulsætnir kennarar úr réttindanáminu 1979 hafa verið í sinni
heimabyggð má ætla að hið væntanlega dreifða nám komi dreifbýlinu að gagni.
323